Erlent

Rýma hluta bæjar í Virginíu vegna hættu á að stífla bresti

Atli Ísleifsson skrifar
Yfirvöld í Virginíu hafa fyrirskipað að hlutar bæjarins Lynchburg verði rýmdir vegna hættu á að stífla bresti vegna mikillar úrkomu og flóða.

Vatnsmagnið í lóninu við College Lake stífluna er nú umfram áætlað þol stíflunnar eftir gríðarlegar rigningar síðustu daga. Úrkoma mældist 15 sentimetrar á fimmtudagskvöldið, að því er segir í frétt BBC.

Lynchburg er sá bær sem stendur næst neðan stíflunnar og er talið að ef stíflan brestur algerlega gæti fimm metra há flóðbylgja skollið á bæinn innan sjö mínútna.

Íbúafjöldi Lynchburg er um 80 þúsund manns, en bæinn er að finna í Blue Ridge fjöllum.

Yfirvöld hafa varað íbúa við að keyra ekki götur sem eru á floti þar sem að lausagrjót og brak kunni að finnast undir yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×