Innlent

Vegagerðin spáir áfram vaxandi umferðarþunga

Kjartan Kjartansson skrifar
Umferð hefur aukist um 3% á milli júlímánaða allt frá árinu 2005.
Umferð hefur aukist um 3% á milli júlímánaða allt frá árinu 2005. Vísir/Ernir
Umferð hefur aukist um þrjú prósent það sem af er þessu ári miðað við árið í fyrra. Vegagerðin segir að aukningin miðað við árstíma sé sú minnsta frá árinu 2012.

Í frétt á vef Vegagerðarinnar kemur fram að umferðin á hringveginum og á höfuðborgarsvæðinu jókst um 2,6% í júlí borið saman við sama mánuð í fyrra. Umferðin í borginni jókst svipað í öllum mælisniðum Vegagerðarinnar, frá 2,1 og upp í 2,9%.

Mest var umferðin á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi þar sem rúmlega 61 þúsund ökutæki fóru um á sólahring. Af mælisniðum Vegagerðarinnar var minnst ekið um Hafnarfjarðarveg við Kópavogslæk, um 43 þúsund ökutæki á sólahring.

Umferðin í júlímánuði hefur aukist um 3% á milli ára frá árinu 2005 og því er aukningin í borginni nú aðeins undir meðalaukningunni. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 3% miðað við sama tímabil í fyrra. Það er minnsta umferðaraukning á þessum árstíma sem sést hefur frá árinu 2012.

Vegagerðin segir að hegði umferðin sér líkt og í meðalári megi búast við svipaðri aukningu í þeim mánuðum sem eftir eru af árinu. Heildaraukningin verði því um 3% miðað við síðasta ár.

Aukning var í umferð alla vikudaga nema sunnudaga en þar mældist um 2,3% samdráttur miðað við sama vikudag í júlí í fyrra. Mest jókst umferð á þriðjudögum og fimmtudögum eða um 3,0%. Mest var ekið á fimmtudögum og minnst á sunnudögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×