Innlent

Búast við hlaupi undan jöklinum á laugardaginn

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Búist er við að jökulhlaupi í Skaftá aðfaranótt laugardagsins 4. ágúst. GPS-mælingar í Eystri-Skaftárkatli sýna að íshellan þar sé farin að lækka og að rennsli úr lóni við jökulbotninn sé hafið. Líklegt er að rennsli úr katlinum hafi byrjað snemma þriðjudaginn 31. júlí og nemur nú stærðarþrepinu 100 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið úr katlinum er vaxandi og vænta má jökulhlaups í Skaftá á næstu dögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Ef atburðarásin verður með sama hætti og hún var í jökulhlaupinu í október 2015 gæti hlaupið brotist undan jökuljaðrinum aðfaranótt laugardagsins 4. ágúst næstkomandi og rennslið nærri jökuljaðrinum náð hámarki snemma á sunnudag. Hlaupið verður um hálfum sólarhring síðar á láglendi við hringveg 1. Ekki er hægt að útiloka að hlaupið verði fyrr á ferðinni og mun náttúruvárvakt Veðurstofunnar fylgjast með framvindu hlaupsins.

Má vænta minna hlaups nú

Fyrir hlaupið 2015 höfðu liðið fimm ár frá síðasta hlaupi en nú eru þrjú ár frá síðasta hlaupi. Því má vænta minna hlaups nú en eftir jafn langt hlé og var árið 2015. Íssjármælingar Jarðvísindastofnunnar Háskóla Íslands sýna einnig að nokkru minna vatn er í lóninu nú en var í upphafi hlaups 2015. Það er því búist við að rennsli í hlaupinu verði minn en í hlaupinu 2015 en ekki er hægt að fullyrða um það því hlaupið nú gæti brotist hraðar fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×