Erlent

Notaði nektarmyndir til að klæmast við karla

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nick Sauer þóttist vera fyrrverandi kærustur sínar til að klæmast við karlmenn á netinu.
Nick Sauer þóttist vera fyrrverandi kærustur sínar til að klæmast við karlmenn á netinu. Nick Sauer
Þingmaður repúblikana í Illinois-ríki hefur sagt af sér eftir að hafa dreift nektarmyndum af fyrrverandi kærustunum sínum á netinu. Þingmaðurinn, Nick Sauer, er sagður hafa búið sér til platreikning á Instagram þar sem hann þóttist vera konurnar. Hann hafi síðan notað nektarmyndirnar til að fá aðra karlmenn til að klæmast við sig.

Fyrrverandi kærasta hans komst á snoðir um málið og sendi formlega kvörtun til ríkisþingsins. Sauer ákvað að víkja eftir að kvörtunin kom fram.

Í tilkynningu sem hann sendi frá sér neitar hann ekki fyrir ásakanirnar. Hann lýsir þeim aðeins sem „ónæði“ sem muni hafa áhrif á störf hans fyrir kjósendur í ríkinu. Ákvörðunin um að segja upp störfum á sínu fyrsta kjörtímabili hafi verið tekin í samráði við fjölskyldu og vini.

Leiðtogi repúblikana í ríkisþinginu segir að ásakanirnar séu alvarlegar og að þær beri að rannsaka. Birting nektar- eða annarra kynferðislegra mynda án samþykkis myndefnisins er ólölegt í Illinois.

Fyrrverandi kærastan sem lagði fram kvörtunina, Kate Kelly, leitaði til siðanefndar ríkisþingsins í gær. Hún tilkynnti málið einnig til lögreglunnar.

Kelly segir í samtali við þarlenda miðla að þau Sauer hafi kynnst á stefnumótaforritinu Tinder árið 2016. Sambandi þeirra lauk svo fyrr á þessu ári þegar hún komst að því að þingmaðurinn hafði átt samneyti við aðrar konur á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×