Innlent

Dómurinn taldi langan undirbúning kæru draga úr trúverðugleika fjölskyldunnar

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í vikunni. Vísir/GVA
Ákæruvaldinu tókst ekki að sýna fram á sekt stuðningsfulltrúans sem sakaður var um kynferðisbrot gegn fjórum börnum og einum pilti. Maðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá barnavernd Reykjavíkur. Stuðningsfulltrúinn var sýknaður af ákæru í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í vikunni en dómurinn taldi orð meintra brotaþola í málunum standa gegn orðum stuðningsfulltrúans. Þar sem ákæruvaldinu tókst ekki að heimfæra vitnisburði brotaþola í málunum í sönnunargögnum þá taldi dómurinn að ekki hefði verið sýnt fram á sekt stuðningsfulltrúans.

Framburður stuðningsfulltrúans var metinn trúverðugur og að mörgu leyti framburður meintra brotþola en dómurinn tekur fram að vitnisburðir í málunum hafi markast af því að langt er um liðið frá því brotin áttu að hafa átt sér stað. Þá tók dómurinn fram að þó svo að margir einstaklingar hefðu borið stuðningsfulltrúann sökum þá nægði það ekki til að sýna fram á sekt hans í einstaka málum. Til þess þyrfti fullnaðarsönnun fyrir hvert ákæruatriði.

Dómurinn hefur verið birtur á vef Héraðsdóm Reykjaness.

Taldi ekki útilokað að fjölskyldan hefði sammælst um framburði

Í fyrsta málinu sem tiltekið er í niðurstöðu kafla dómsins er stuðningsfulltrúinn sakaður um nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa í fjölmörg skipti haft önnur kynferðismök við dreng og áreitt hann kynferðislega á tímabilinu 2004 til 2010, frá því hann var sjö til þrettán ára gamall.

Í niðurstöðu dómsins er tekið fram að stuðningsfulltrúinn neitaði sök en kannaðist við að hafa farið í sund með brotaþola og útilegu og gist í tjaldvagni með honum, undir einni sæng. Að öðru leyti kannaðist stuðningsfulltrúinn ekki við neitt af því sem tekið var fram í ákæru gegn honum.

Var framburður stuðningsfulltrúans sagður að mestu leyti eins, hjá lögreglu og fyrir dómi, en einkenndist af nokkru minnisleysi. Telur dómurinn það að hluta til skýrast af því að nokkuð er um liðið frá því meint brot áttu sér stað og því ómögulegt að henda nákvæmlega reiður á tímasetninguna.

Var stuðningsfulltrúinn sagður hafa verið sjálfum sér samkvæmur og út af fyrir sig ekki ótrúverðugur.



Undirbúningur kærunnar nefndur

Framburður brotaþola um brotin var sagður trúverðugur um þau brot sem ákært var fyrir og sagður frá stoð í framburði foreldra hans og systkina. Aðdragandi málsins og ýmis gögn er þó talin til þess fallin að draga úr trúverðugleika brotaþola og fjölskyldu hans.

Dómurinn taldi að umræða um málið hefði átt sér stað í fjölskyldunni í töluverðan tíma áður en rannsókn lögreglu hófst og því ekki loku fyrir það skotið að fjölskyldan hafði sammælst eitthvað um framburð sinn í málinu.

Nefndi dómurinn þar að undirbúningur að kæra á hendur stuðningsfulltrúans hefði staðið yfir í töluverðan tíma áður en kæra var lögð fram til lögreglu. Er þar tekið fram að drengurinn greindir sálfræðingi frá því í lok árs 2015 að til stæði að fara í málaferli á hendur stuðningsfulltrúanum „næsta haust“.  Sömuleiðis kom fram í umsóknargögnum brotaþola að hann hafi hætt í vinnu þar sem hann ætlaði að kæra og það tæki á hann og sömuleiðis að brotaþoli hafi notið lögfræðiaðstoðar í málinu. Í málinu lá fyrir skrifleg frásögn móður brotaþola af atvikum sem áttu að hafa átt sér stað 2. mars árið 2012 en þau voru rituð að beiðni lögfræðings í október árið 2016. Allt þetta taldi dómurinn draga úr trúverðugleika framburðar brotaþola og ættingja hans í málinu.



Engin sérstök gögn um afleiðingar kynferðisofbeldis

Í öðru málinu sem fjallað er um í niðurstöðu dómsins er stuðningsfulltrúinn einnig sagður samkvæmur sjálfum sér og út af fyrir sig ekki ótrúverðugur. Þar er stuðningsfulltrúinn sakaður um nauðgun og kynferðisbrot gegn barni með því að hafa haft önnur kynferðismök við stúlku einhvern tímann á árunum 2005 til 2008 þegar hún var sjö til tíu ára gömul.

Stuðningsfulltrúinn kannaðist við að stúlkan hefði fengið að gista hjá sér einhvern tímann, með bróður sínum. Hann neitaði þó öllum sakargiftum en framburður stuðningsfulltrúans er sagður einkennast af minnisleysi sem er sagt skýrast af því að nokkuð er um liðið frá því meint brot áttu sér stað.

Við mat á framburði stúlkunnar tekur dómurinn fram að hún var mjög ung þegar atvik sem málið hverfist um á að hafa átt sér stað og nokkuð um liðið síðan. Var misræmi í frásögn stúlkunnar sagt skýrast af því. Dómurinn tók fram að það drægi úr trúverðugleika framburðar stúlkunnar og fjölskyldu hennar í málinu að ekki væri útilokað að fjölskyldan hefði að einhverju leyti talað sig saman um málsatvik.

Þá er tekið fram að engin sérstök gögn um afleiðingar kynferðisofbeldis hefðu verið lögð fram, engir sérfræðingar fengnir til að leggja mat á möguleg áhrif þess á brotaþola, engin læknisfræðileg gögn verið lögð fram er varða heilsu hennar og líðan. Fullyrðingar um kynferðisbrot fengu því ekki stuðning í gögnum málsins.

Við leit á heimili stuðningsfulltrúans og í tölvubúnaði og tækjum hans fannst ekkert saknæmt sem gæti rennt stoðum undir sekt hans.

Er tekið fram að samkvæmt áliti dómsins var með framburði stúlkunnar og vitna voru líkindi færð að sekt stuðningsfulltrúans en dómurinn bendir á að orð standi gegn orði í málinu.



Framburður brotaþola ekki fullkomlega skýr

Í þriðja málinu var stuðningsfulltrúinn sakaður um að hafa nauðgað dreng á heimili sínu árið 2006. Stuðningsfulltrúinn kannaðist við að drengurinn hefði fengið að gista heima hjá sér á árunum 2005 eða 2006. Sagði hann drenginn hafa sofið í rúmi sínu en í hitt skiptið á dýnu. Sagðist stuðningsfulltrúinn að öðru leyti ekki muna glöggt eftir heimsóknunum sem hann taldi vera stuttar.

Var stuðningsfulltrúinn sagður samkvæmur sjálfum sér og út af fyrir sig ekki ótrúverðugur.

Var framburður drengsins fyrir dómi og á rannsóknarstigi sagður ekki fullkomlega skýr og drengurinn stundum eins og óviss um atvik. Var framburður drengsins, þó trúverðugur sé, ekki lagður til grundvallar sakfellingu gegn neitun stuðningsfulltrúans.

Móðir drengsins sagði fyrir dómi að drengurinn hefði greint sér frá brotunum eftir að þau fengu vitneskju um að sonur kunningjafjölskyldu þeirra hefði lagt fram kæru á hendur stuðningsfulltrúanum. Móðirin kvað son sinn ekki hafa lýst atvikum fyrir sér og bróðir drengsins kvaðst enga hugmynd hafa haft um málið fyrr en eftir að stuðningsfulltrúinn var hnepptur í gæsluvarðhald og þá af samtali við móður sína. Fékk því frásögn drengsins ekki stoð í vitnisburði bróður hans.

Dómurinn tók fram að engra sérstakra gagna naut í málinu sem rennt gæti stoðum undir það að vanlíðan drengsins ætti rót í meintu kynferðisofbeldi. Áréttaði dómurinn að þrátt fyrir að fleiri einstaklingar en drengurinn hafi borið stuðningsfulltrúann sökum, og að það kunni að renna stoðum undir framburð drengsins, þá verði engu að síður að koma fullnaðarsönnun um hvert það brot sem ákært er fyrir. Að mati dómsins tókst ákæruvaldinu það ekki.



Breytti frásögn

Í fjórða málinu sem fjallað er um í niðurstöðukaflanum er stuðningsfulltrúinn sakaður um nauðgun og kynferðisbrot gegn dreng með því að hafa í fjölmörg skipti haft önnur kynferðismök við drenginn á tímabilinu 1998 til 2004 eða 2005 þegar drengurinn var 6 ára til 12 eða 13 ára gamall.

Líkt og í hinum málunum neitaði stuðningsfulltrúinn sök, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og kunni engar skýringar á kæru drengsins gegn sér. Var framburður hans sagður skýr og út af fyrir sig ekki ótrúverðugur.

Framburður brotaþola þótti trúverðugur og sýnilegt að skýrslugjöfin tók mjög á hann. Var tekið fram að langt er um liðið og það kunni að skýra ónákvæmni í frásögn brotaþola um tímasetningar og jafnvel staði þar sem brotin eiga að hafa átt sér stað. Þá vekur dómurinn athygli á því að brotaþoli féll fyrir dómi frá þeim framburði sínum hjá lögreglu að tiltekið atvik, meint brot gegn honum og öðrum, hefði hent þá. Kvað brotaþoli fyrir dómi að það atvik hefði hent sig og vitni í málinu.

Dómurinn sagði að ekki væri hægt að leggja framburð brotaþola einan til grundvallar sakfellingu gegn neitun ákærða, jafnvel þó framburðurinn væri mjög trúverðugur. Taldi dómurinn að nokkur líkindi væru færð fyrir sekt stuðningsfulltrúans með framburði brotaþola og vitna en engu að síður standi orð gegn orði. Var það mat dómsins að engin gögn hefðu verið færð fram í málinu sem nægi til að renna skýrum stoðum undir sekt stuðningsfulltrúans.

 

Skýrslur móður og vitna ekki til þess fallnar að renna stoðum undir ásakanir

Í fimmta málinu var stuðningsfulltrúinn sakaður um nauðgun og brot gegn dreng þegar hann var 13 eða 14 ára gamall á árunum 2002 til 2003.

Stuðningsfulltrúinn neitaði sök og var framburður hans í sjálfu sér ekki ótrúverðugur að mati dómsins.

Dómurinn taldi hins vegar misræmi gæta í framburði brotaþola málsins fyrir dómi og hjá lögreglu. Misræmi er laut að lýsingu á meintum brotum og því hvenær brotaþoli fór í ferð með stuðningsfulltrúanum, en brotaþoli var óviss um tímasetningu fyrir dómi. Tók dómurinn fram að langt væri um liðið og brotaþoli enn unglingur á þeim tíma sem brotin áttu að hafa átt sér stað.

Voru skýrslur móður brotaþola og annarra vitna ekki til þess fallnar að mati dómsins að renna stoðum undir ásakanirnar.

Var það mat dómsins að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt stuðningsfulltrúans í málinu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×