Innlent

Lögregla rannsakar eldsupptök við Þingvallavatn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tvö hús brunnu til grunna í gær, annað um 150 fermetrar og hitt um 20 fermetrar.
Tvö hús brunnu til grunna í gær, annað um 150 fermetrar og hitt um 20 fermetrar. Vísir/Jóhann k. Jóhannsson
Upptök elds sem kviknaði í sumarhúsum við Þingvallavatn í gær eru ókunn. Lögregla hefur formlega tekið við rannsókn á vettvangi. Að sögn varðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu gekk slökkvistarf vel í gær miðað við umfang eldsins.

Pétur Pétursson hjá Brunavörnum Árnessýslu segir að slökkvistarfi sé lokið á vettvangi. Slökkviliðsmenn voru þó að störfum á svæðinu fram eftir kvöldi í gær en slökkva þurfti aftur í glóð í brunarústunum, sem Pétur segir ekki óvenjulegt.

„Þetta gekk mjög vel, í rauninni, hvað varðar efni og umfang. Það hefðu svo sannarlega miklu stærri og meiri hlutir getað gerst hvað gróðurinn varðar, þó að það hafi auðvitað orðið gríðarlegt tjón á húsunum,“ segir Pétur.

Lögregla tók formlega við vettvangi brunans í gær. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að lögregla sé nú við störf á svæðinu og rannsaki eldsupptök. Ekkert sé þó hægt að gefa uppi um þau að svo stöddu. Þá hefur eigendum húsanna verið tilkynnt um tjónið.

Tvö hús brunnu til grunna við Þingvallavatn eftir að eldur kom upp í þeim í hádeginu í gær. Um var að ræða eitt 150 fermetra hús og annað um 20 fermetra stórt.

Slökkvistarf gekk vel á vettvangi í gær.Vísir/jóhann k. jóhannsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×