Fótbolti

Byrjaði á bekknum en skoraði samt níu mörk í leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wang Shanshan.
Wang Shanshan. Vísir/Getty
Kínverska knattspyrnukonan Wang Shanshan hefur heldur betur vakið athygli fyrir frammistöðu sína á Asíuleikunum.

Wang Shanshan er markahæsti leikmaður leikanna með ellefu mörk í þremur leikjum. Stærsta fréttin er þá frammistaða hennar í leik á móti Tadsíkistan, leik þar sem hún byrjaði ekki einu sinni inná.

Hún hefur skorað í öllum þremur leikjum Kínverja en það er frammistaða hennar á 34 mínútum á móti Tadsíkistan sem hefur tryggt henni fyrirsagnir út um allan heim.

Wang Shanshan skoraði nefnilega 9 mörk í 16-0 sigri Kína á Tadsíkistan en lið Tadsíkistan tapaði öllum þremur leikjum sínum í riðlakeppninni og var með -37 í markatölu.

Wang Shanshan kom ekki inná völlinn í leiknum á móti Tadsíkistan fyrr en á 56. mínútu. Þá var staðan orðin 6-0 og úrslitin löngu ráðin.

Wang Shanshan skoraði fyrsta markið sitt eftir átta mínútna leik og 29 mínútum síðar hafði hún bætt við átta mörkum til viðbótar.

Kínverska liðið tók alls 65 skot í leiknum þar af hittu 33 þeirra markið.





Wang Shanshan skaut 11 sinnum í leiknum, tíu skot fóru á markið og níu þeirra enduðu í netinu.

Hún fékk í kjölfarið viðurnefnið „Nine-Goal Diva“ í erlendum fjölmiðlum eða níu marka dívan.  

Liðsfélagi hennar,  Rong Zhao, skoraði reyndar fimm mörk í leiknum en frammistaða hennar féll algjörlega í skuggann á markaveislu Wang Shanshan.





Wang Shanshan skoraði ekki mikið framan af landsliðsferli sínum en fór að raða inn mörkum í þjálfaratíð Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar.

Wang Shanshan skoraði í fjórum landsleikjum á meðan Sigurður Ragnar var þjálfari og hefur síðan haldið uppteknum hætti eftir að Jia Xiuquan tók við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×