Innlent

Frekari málshöfðun kemur til greina

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mögulegt er að fleiri mál verði höfðuð á vegum þrotabús United Silicon að sögn slitastjóra þrotabúsins. Greint var frá því í dag að þrotabú United Silicon hafi höfðað annað skaðabótamál á hendur Magnúsi Ólafi Garðarssyni, stofnanda og fyrrverandi forstjóra United Silicon, fyrir fjársvik. 

Þrotabúið gerði fyrr í þessum mánuði kröfu um að Magnús verði dæmdur til að greiða 570 þúsund evrur auk vaxta, eða sem nemur 71 milljón króna, sem talið er að hann hafi látið leggja inn á bankareikning sem hann lét stofna í Danmörku í nafni félagsins í ágúst 2014. Ekki komst upp um málið fyrr en á greiðslustöðvunartímabilinu árið 2017 að sögn Geirs Gestssonar, skiptastjóra þrotabús United Silicon.

„Við höfum fengið sem sagt reikningsyfirlit frá þessum banka og þar kemur fram að það hafi verið lögð inn fjárhæð sem nemur stefnufjárhæðinni, 570.660 evrum, inn á reikninginn í Danmörku og síðan hafi sú fjárhæð verið tekin út í þrennu lagi og lögð inn á reikning fyrirtækis Magnúsar, Tomahawk Development á Íslandi,“ segir Geir.

Þetta er önnur stefnan á hendur Magnúsi en í upphafi árs stefndi þrotabúið Magnúsi fyrir útgáfu tilhæfulausra og falsaðra reikninga. Í þeirri stefnu er farið fram á kyrrsetningu á fasteignum Magnúsar í Kópavogi og í Danmörku, ásamt tveimur bifreiðum Magnúsar og á eignarhlutum hans í félögunum Brimstone ehf. og Tomahawk Development á Íslandi hf. Þá fór United Silicon fram á að hann yrði dæmdur til að greiða félaginu rúmlega 530 milljónir króna.

Nýja stefnan á rætur að rekja til rannsóknarvinnu endurskoðendafyrirtækisins KMPG fyrir þrotabúið. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 12. september og óskar þrotabúið eftir því að málin tvö verði sameinuð. Þá segir Geir til greina koma að frekari mál verði höfðuð á vegum þrotabúsins.

„Já það kemur til greina, við erum með það til skoðunar,“ segir Geir. Aðspurður segir hann ekki tímabært á þessu stigi málsins að greina frá því hvers eðlis sú málshöfðun yrði.


Tengdar fréttir

Gríðarlangur listi aðfinnslna í skýrslu Ríkisendurskoðunar um United Silicon

Úttekt Vinnueftirlits ríkisins, skortur á athugun á bakgrunni rekstraraðila og kröfuleysi við framkvæmd umhverfismats er meðal þess sem Ríkisendurskoðun setur út á í skýrslu sinni um United Silicon. Starfsemi fyrirtækisins var stöðvuð síðasta haust eftir ítrekaðar uppákomuar í rekstri verksmiðjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×