Erlent

Netið verður að vera „hreint og réttlátt“

Kjartan Kjartansson skrifar
Ritskoðun og skerðing á tjáningarfrelsi hefur aukist frá því að Xi Jinping tók við völdum fyrir sex árum.
Ritskoðun og skerðing á tjáningarfrelsi hefur aukist frá því að Xi Jinping tók við völdum fyrir sex árum. Vísir/EPA
Xi Jinping, forseti Kína, segir að alnetið verði að vera „hreint og réttlát“ og hvetur til þess menningarlífið frábiðji sér klúrt efni. Kínversk yfirvöld hafa í vaxandi mæli ritskoðað bæði klámfengið efni og andóf á alnetinu.

Reuters-fréttastofan segir að Xi hafi sagt áróðursmeisturum ríkisstjórnarinnar að þeir yrðu að halda uppi velsæmi á netinu. Lagði hann áherslu á mikilvægi áróðurs.

Yfirvöld hafa undanfarið tekið hart á alls kyns efni á netinu, allt frá beinum útsendingum um netið og bloggfærslum til netleikja. Þau hafa lokað allt að 128.000 vefsíðum sem þau segja hafa dreift klámfengnu eða „skaðlegu“ efni.

„Hafnið því klámfengna, því lágkúrulega og því hallærislega. Dreifið meira heilbrigðu, gæðamenningar- og listaefni á netinu,“ sagði forsetinn á tveggja daga ráðstefnu embættismanna sem sinna áróðursmálum.

Ritskoðun kínverskra yfirvalda nær meðal annars til erlendra fréttasíðna, leitarvéla og félagsmiðla. Tæknirisinn Google hefur legið undir ámæli undanfarið fyrir að smíða leitarvél sérstaklega fyrir kínverskan markað sem ritskoðar efni sem þarlend yfirvöld vilja halda frá þegnum sínum.


Tengdar fréttir

Google hannar leitarvél með ritskoðun fyrir Kínverja

Google vinnur nú að nýrri leitarvél fyrir kínverskan markað. Samnefnd leitarvél fyrirtækisins er á svarta listanum þar í landi, er sum sé á bak við Netkínamúrinn svokallaða líkt og fjölmargar aðrar síður sem sýna eða veita aðgang að efni sem kínverska ríkisstjórnin telur óæskilegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×