Erlent

Svíþjóðardemókratar mælist ekki lengur annar stærsti flokkurinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jimmie Åkesson er formaður Svíþjóðardemókrata.
Jimmie Åkesson er formaður Svíþjóðardemókrata. Vísir/Getty
Svíþjóðardemókratar missa fylgi í nýjustu könnun Novus  og mælast ekki lengur annars stærsti flokkurinn í Svíþjóð. Þingkosningar fara fram í landinu þann 9. september næstkomandi og stefnir í einhverjar mest spennandi kosningar í landinu í langan tíma.

Svíþjóðardemókratar, sem eru harðir í andstöðu sinni gegn straumi innflytjenda til Svíþjóðar, mælast í könnunni nú með 19,2 prósent fylgi, 2,4 prósent minna en í síðustu könnun Novus sem framkvæmd var þann 16. ágúst.

Jafnaðarmannaflokkurinn mælist með 25,1 prósent fylgi en hægriflokkurinn Moderaterna 19,3 prósent.

„Minna fylgi Svíþjóðardemókrata skýrist væntanlega af auknu fylgi Moderaterna, að aftur sé litið á Moderaterna sem trúverðugan valkost fyrir þá sem vilja stjórnarskipti,“ segir Torbjörn Sjöström hjá Novis í samtali við SVT.

Græningjar mælast með 6,2 prósent fylgi og Kristilegir demókratar með 3,5 prósent og myndu ekki ná manni inn á þing, yrði það niðurstaða kosninganna.

Niðurstaða nýrrar könnunar Novus (könnun frá 16. ágúst innan sviga)

  • Jafnaðarmannaflokkurinn 25,1 prósent (24,3)
  • Moderaterna 19,3 prósent (18,1)
  • Svíþjóðardemókratar: 19,2 prósent (21,6)
  • Miðflokkurinn: 10,0 prósent (9,6)
  • Vinstriflokkurinn: 8,7 prósent (9,6)
  • Græningjar: 6,2 prósent (5,2)
  • Frjálslyndi flokkurinn: 5,3 prósent (5,9)
  • Kristilegir demókraar: 3,5 prósent (3,0)
  • Aðrir flokkar: 2,7 prósent.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×