Innlent

Ungar stúlkur flúðu þegar alskeggjaður maður bauð þeim nammi á Bræðraborgarstíg

Birgir Olgeirsson skrifar
Atvikið átti sér stað á Bræðraborgarstíg.
Atvikið átti sér stað á Bræðraborgarstíg. ja.is
Ungur stúlkur forðuðu sér undan manni sem bauð þeim nammi á Bræðraborgarstíg í nærri gatnamótunum við Sólvallagötu í Reykjavík í gær. Faðir annarrar stúlkunnar greindi frá þessum í Vesturbæjarhópnum á Facebook en lögreglan segir engar fleiri tilkynningar hafa borist um manninn sem var lýst og ekki hægt að styðjast við myndefni þar sem engar öryggismyndavélar eru á svæðinu.

Bjarni Kristjánsson sagði frá því að sjö ára gömul dóttir hans og átta ára gömul vinkona hennar hefðu verið á gangi á Bræðraborgarstíg þegar maður kom akandi á bifreið, stöðvaði, skrúfaði niður rúðuna og kallaði til þeirra að hann væri með nammi handa þeim.

Bjarni sagði að sem betur hefðu stúlkurnar orðið skelkaðar og hlaupið í felur á bak við nærliggjandi bifreið. Bjarni segir manninn hafa bakkað bifreiðinni og reynt að sjá hvert stúlkurnar fóru en ók svo á brott.

Dóttir hans sagði manninn hafa verið á stórum bíl, mögulega á stærð við sendibíl, þar sem ökumannshúsið, sem var hvítt, var aðskilið frá aftara húsinu sem var dekkra.

Dóttir Bjarna lýsti manninum á milli fimmtugs og sextugs með grátt og nokkuð sítt alskegg. Var maðurinn klæddur í flíspeysu með rennilás og húfu á höfði.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa engar fleiri tilkynningar af svipuðu toga borist og þá eru engar öryggismyndavélar á svæðinu til að styðjast við.

Bjarni segir í samtali við Vísi að dóttir hans og vinkona hennar hefðu frétt af atviki sem átti sér stað við verslunina Kjötborg í Ásvallagötu í Reykjavík fyrr í ár. Þar kom kona að manni sem var að ræða við tíu ára gamla stúlku um að kaupa hjól hennar. Konan spurði stúlkuna hvort hún þekkti manninn. Þegar stúlkan svaraði því neitandi hljóp maðurinn í burtu.

„Þær komust í mikið uppnám og uppgötvuðu þarna að það væru menn til sem væru ekki voðalega góðir. Það var mikil umræða um þetta á heimili og brugðust þær rétt við þegar þær lentu í svipaðri aðstöðu,“ segir Bjarni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×