Innlent

Sjö bíla árekstur á Bústaðavegi við Flugvallarveg

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá vettvangi á öðrum tímanum í dag.
Frá vettvangi á öðrum tímanum í dag. Mynd/Þórarinn Fannar Guðmundsson
Sjö bíla árekstur varð á mótum Flugvallarvegar og Bústaðavegar á öðrum tímanum í dag. Fjórir voru fluttir á slysadeild, að sögn varðstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, en meiðsl þeirra eru ekki talin alvarleg.

Þrír sjúkrabílar og dælubíll, auk lögreglubíla, voru sendir á vettvang þegar útkallið barst. Sjö bílar skemmdust við áreksturinn.

Þá hefur Bústaðavegi verið lokað í austurátt á meðan viðbragðsaðilar vinna á vettvangi. Miklar umferðartafir eru í kringum slysstað. Þá hefur beygjuakrein frá Miklubraut upp á Bústaðaveg einnig verið lokað.

Uppfært klukkan 14:25:

Búið er að draga alla bílana af slysstað nema einn en að sögn varðstjóra urðu töluverðar skemmdir á nokkrum bílanna. Eins og áður sagði lentu sjö bifreiðar í árekstrinum.

Enn er lokað fyrir umferð um Bústaðaveg í austurátt og viðbragðsaðilar starfa á vettvangi. Ekki var hægt að segja til um það á þriðja tímanum hvenær þeirri vinnu yrði lokið og þá ekki heldur hvenær opnað yrði aftur fyrir umferð á svæðinu.

Uppfært klukkan 15:40:

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu er búið að opna fyrir alla umferð um Bústaðaveg.

Lögregla hefur lokað beygjuakgrein upp á Bústaðaveg frá Miklubraut.Vísir/Sunna Kristín



Fleiri fréttir

Sjá meira


×