Enski boltinn

Giggs: Ógnvekjandi hversu gott Liverpool er

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool gengur vel.
Liverpool gengur vel. vísir/getty
Ryan Giggs, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segir ekkert lið betra frá fyrsta manni til ellefta í ensku úrvalsdeildinni en Liverpool. Titilbaráttan, að hans mati, verður á milli Liverpool og Mancheter City.

„Þegar að Liverpool var með Raheem Sterling, Luis Suárez og Daniel Sturridge í sínu besta formi var Liverpool-liðið gott en það er meira jafnvægi á þessu liði,“ segir Giggs.

Liverpool tapaði fyrsta leiknum á tímabilinu í gærkvöldi þegar að það féll úr leik í deildabikarnum á móti Chelsea en liðin mætast í úrvalsdeildinni á laugardaginn. Bæði eru ósigruð í deildinni og Liverpool búið að vinna alla sína leiki.

„Það eru leikmenn þarna sem eru búnir að vera að í nokkur ár en svo eru ungir leikmenn í bland við reynslubolta eins og Jordan Henderson og James Milner. Blandan er góð,“ segir Giggs.

„Liverpool hefur ekki spilað vel í öllum leikjum en samt náð í úrslit sem er frekar ógnvekjandi. Lið sem geta það vinna titla. Þetta snýst ekki bara um að spila leiftrandi fótbolta og skora fjögur til fimm mörk í herjum leik. Það þarf bara að vinna leikina,“ segir Ryan Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×