Fótbolti

Mætti Val fyrir tveimur árum en nú var mótherjinn Real Madrid

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór í baráttunni við einn besta varnarmann í heimi, Raphael Varane, í leiknum í gær.
Arnór í baráttunni við einn besta varnarmann í heimi, Raphael Varane, í leiknum í gær. vísir/getty
Saga knattspyrnumannsins Arnórs Sigurðssonar er ótrúleg en hann hefur skotist fljótt upp á stjörnuhimininn í boltanum. Hinn nítján ára gamli Arnór hefur gert margt þrátt fyrir ungan aldur.

Það eru ekki nema tvö ár síðan að Arnór var að spila í Pepsi-deild karla. Hann spilaði sex leiki með Skagamönnum, uppeldisfélagi sínu, tímabilið 2016 þá sautján ára gamall.

Þar á meðal kom hann inn á sem varamaður gegn Val í lokaumferðinni, 1. október 2016 er hann var skipt inn á fyrir Ian Williamsson. Hann spilaði síðustu átta mínútur leiksins.

Hann vakti mikinn áhuga erlendra liða og var svo seldur til Norrköping vorið eftir, nánar tiltekið í mars 2017, en þar var hann fljótur að vinna sér sæti í byrjunarliðinu þrátt fyrir ungan aldur.

Þar spilaði hann afar vel og í sumar voru lið víðsvegar um Evrópu byrjuð að hafa samband við Norrköping um að klófesta Skagamanninn.

Norrköping vildi ekki selja hann svo auðveldlega og neitaði góðum tilboðum í hann, meðal annars frá Rússlandi.

Þeir gátu hins vegar ekki sagt nei þegar það kom risa tilboð frá einu stærsta félagi Rússlands, CSKA Moskva, í Arnór og ákvað Norrköping að selja hann til CSKA síðla sumars.

CSKA er í Meistaradeildinni þetta tímabilið og Arnór kom inn á sem varamaður í fyrstu umferðinni gegn Viktoria Plzen er CSKA náði 1-1 jafntefli með jöfnunarmarki í uppbótartíma.

Í gærkvöldi kom svo Arnór aftur inn á og spilaði hann tólf mínútur. Nú voru mótherjarnir örlítið sterkari, þrefaldir Evrópumeistarar, Real Madrid. CSKA vann þó leikinn 1-0 með marki Nikola Vlasic í byrjun leiks.

Uppgangur unga Skagamannsins er í raun ótrúlegur og sér ekki fyrir endann á honum.

Breyting Arnórs á tveimur árum:

1. október 2016 - Spilar átta mínútur gegn Val í Pepsi-deild karla

2. október 2018 - Spilar tólf mínútur gegn þreföldum Evrópumeisturum Real Madrid í Meistaradeild Evrópu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×