Fótbolti

Ronaldo afgreiddi Empoli með þrumufleyg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ronaldo fagnar sigurmarkinu.
Ronaldo fagnar sigurmarkinu. vísir/getty
Juventus heldur áfram sinni vegferð í átt að áttunda meistaratitlinum í röð á Ítalíu en liðið vann 2-1 sigur á Empoli í kvöld.

Það byrjaði ekki vel fyrir Juventus í kvöld en heimamenn í Empoli komst yfir á 28. mínútu með marki frá Francesco Caputo. Empoli leiddi í hálfleik, 1-0.

Juventus fékk vítaspyrnu á 54. mínútu er brotið var á Paulo Dybala. Eftir að hafa þurft að bíða lengi eftir að taka vítaspyrnuna brást Cristiano Ronaldo þó ekki bogalistinn og jafnaði metin í 1-1.

Stundarfjórðungi síðar var Portúgalinn aftur á ferðinni með glæsilegu marki. Hann fékk boltann um tuttugu metra frá marki Empoli og lét vaða. Boltinn söng í netinu og þetta varð sigurmark Juve.

Juventus er með 28 stig eftir fyrstu tíu leikina; níu sigra og eitt jafntefli. Næst kemur Napoli með 21 stig en á þó leik til góða. Empoli er í átjánda sætinu með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×