Lífið

Forsetinn stóð með hníf fyrir framan Emil sem varð að horfa í augun á honum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Emil hefur í áraraðir verið atvinnumaður í knattspyrnu.
Emil hefur í áraraðir verið atvinnumaður í knattspyrnu.
„Ég var kominn í klúbb sem var næstum því með mafíósa sem forseta liðsins. Forsetinn sjálfur kom inn í klefa, þetta er svona sextugur gæi, og hélt á hníf og svo labbaði hann um með hnífinn og það þurftu allir að horfa í augun á honum,“ segir landsliðsmaðurinn og atvinnumaðurinn Emil Hallfreðsson í nýjasta hlaðvarpsþætti Snorra Björns en þar fer hann ítarlega yfir feril sinn alveg frá því að hann varð fyrst Íslandsmeistari með FH árið 2004.

Emil fór fljótlega til Ítalíu á sínum ferli og er menningin þar töluvert öðruvísi en þekkist hér á landi.

Umræddur forseti var hjá knattspyrnuliðinu Reggina á Ítalíu og leist Emil ekkert á blikkuna til að byrja með.

„Við þurftum allan tímann að horfa í augun á honum og þarna hugsaði ég að þetta væri nú eitthvað skrýtið. Mörgum árum seinna eftir að ég fer frá liðinu kemur í ljós að varaforsetinn var handtekinn fyrir að vera í samstarfi við ítölsku mafíuna.“

Hann segist ekkert verða var við ítölsku mafíuna þarna úti en hér að neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni sem stendur yfir í tvær klukkustundir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×