Lífið

„Safna alveg í kringum mig fólki sem lætur mig fá það óþvegið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hildur Björnsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir er lögfræðingur að mennt, bjó í London um árabil, veit þó ekkert skemmtilegra en að gera upp íbúðir og safnar í kringum sig fólki sem á í engum erfiðleikum með að segja henni til þegar þess þarf.

Sindri bankaði upp á hjá Hildi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins klukkan 8:00 um morgun og fékk að kynnast morgunrútínu þessarar þriggja barna móður í þættinum Íslandi í dag á Stöð 2 í gærkvöldi. Hildur segist vera a-manneskja sem elski samt sem áður að sofa út. Hún talaði einnig um starfið við Sindra Sindrason og segist hafa mest gaman af því að ræða við fólk sem er henni ósammála.

„Við getum alveg borðað saman í vinnunni og gerum það oft,“ segir Hildur um andstæðinga sína í borginni.

En hver er leiðinlegastur í vinnunni?

„Ég er ábyggilega leiðinlegust,“ segir Hildur í léttum tóni.

Gamaldags þras

„Mér finnst pólitíkin stundum óttalegt þras og stundum svolítið gamaldags. Ég held að það sé svolítið ákall í þjóðfélaginu um breytt stjórnmál og ég hélt að við værum komin aðeins lengra í því. Þetta er mikið um leikrit og baráttu um það hver á einhverja tillögu og bara frekar hallærislegt.“

Hún segist vera mjög ánægð með það að hún skildi hafa prófað að fara út í pólitík, en langar hana að verða borgastjóri?

„Þetta er mjög stór spurning. Ég ætla bara að klára þetta kjörtímabil og ég hef lært það að maður veit aldrei hvar maður verður staddur í lífinu eftir nokkur ár. Ég ætla bara að vera í þessu núna, gera það vel og svo veit ég ekkert hvar ég verð eftir nokkur ár.“

Hún segist ekki hafa mikið álit á fólki sem getur ekki verið heiðarlegt og komið til dyranna eins og það er klætt.

„Ég safna alveg í kringum mig fólki sem lætur mig fá það óþvegið og ég kann alveg að meta það.“

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×