Fótbolti

Van Persie leggur skóna á hilluna í vor

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Van Persie í leik með Feyenoord.
Van Persie í leik með Feyenoord. vísir/getty
Hollenski knattspyrnukappinn Robin van Persie hefur gefið það út að hann ætli sér að leggja skóna á hilluna í lok þessa tímabils.

Hinn 35 ára gamli Van Persie er á mála hjá Feyenoord þar sem hann hóf sinn feril 17 ára gamall. Hann átti glæstan feril með hollenska landsliðinu, Arsenal og Man. Utd.

„Ég mun líklega hætta í lok leiktíðar. Þá verð ég orðinn 36 ára gamall og hef verið atvinnumaður í 18 ár. Frá því ég var fimm ára hef ég ekki gert neitt nema vera í fótbolta,“ sagði Van Persie.

Hann sagðist hafa tapað gleðinni í fótboltanum er hann var hjá Fenerbahce í Tyrklandi. Því ákvað hann að fara heim.

„Heimkoma mín snýst ekki bara um að verða meistari með Feyenoord. Ég var búinn að tapa gleðinni af því að spila fótbolta. Ég vildi ekki enda ferilinn þannig og ég hef fundið gleðina aftur hjá Feyenoord. Þannig vil ég hætta í fótbolta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×