Fótbolti

Fékk sjö ára bann fyrir að bíta andstæðinginn í nefið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Luis Suarez er hvað þekktasta dæmið um fótboltamann sem hlaut refsingu fyrir að bíta andstæðing sinn.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Luis Suarez er hvað þekktasta dæmið um fótboltamann sem hlaut refsingu fyrir að bíta andstæðing sinn. Vísir/Getty
Leikmaður þýska neðrideildarliðsins Preussen Eiberg hefur verið dæmdur í sjö ára bann frá fótbolta eftir að hann beit andstæðing sinn í nefið.

Leikmanninum tókst að bíta hluta úr annari nös andstæðingsins og þurfti hann að dvelja á sjúkrahúsi í þrjá daga eftir atvikið.

Í gær var leikmaðurinn svo dæmdur í sjö ára bann, tvö þeirra skilorðsbundin.

Hvorki leikmaðurinn sem braut af sér né sá sem brotið var á hafa verið nafngreindir vegna laga um friðhelgi í Þýskalandi.

Það er þó vitað að gerandinn var fertugur karlmaður og var hann einnig kærður af lögreglunni í Essen fyrir líkamsárás. Hann hlaut þá refsingu að greiða 500 evrur til góðgerðarsamtaka og hann þarf að greiða málskostnað upp á 100 evrur.

Leikmaðurinn segist ekki hafa viljandi „framkvæmt bithreyfingu.“

Þegar Luis Suarez beit Giorgio Chiellini í öxlina á HM 2014 fékk hann fjögurra mánaða bann frá fótbolta, bann í næstu níu landsleikjum og þurfti að greiða sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×