Erlent

Geipilegt klámgláp sýkti jarðfræðistofnun Bandaríkjanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Talið er að starfsmaðurinn hafi sótt um 9000 klámsíður í vinnunni.
Talið er að starfsmaðurinn hafi sótt um 9000 klámsíður í vinnunni. Getty/schyther5
Klámneysla starfsmanns bandarísku jarðfræðistofnunarinnar kom ekki aðeins í bakið á honum, heldur vinnustaðnum öllum. Rannsókn þarlendra eftirlitsaðila leiddi nefnilega í ljós að með klámglápi sínu hafi starfsmanninum tekist að sýkja tölvukerfi stofnunarinnar með skæðum tölvuvírusum.

Starfsmaðurinn, sem hvorki er kyn- né nafngreindur í bandarískum miðlum, er sagður ítrekað hafa sótt klámsíður í vinnunni á síðustu árum. Eftirlitið áætlar að síðurnar telji um 9000 og að á meðal þeirra séu síður sem eru gjörsamlega þjakaðar af hvers kyns tölvuóværum. Einni þessara síðna hafi tekist að lauma vírus í tölvu starfsmannsins sem svo dreifðist út um allt tölvukerfi jarðfræðistofnunarinnar.

Umræddur tölvuormur er sagður hannaður til þessa að stela gögnum úr hýsli sínum. Þá er vírusinn jafnframt sagður „tengjast“ tölvuárásum, án þess að það sé útskýrt nánar á vef TechCrunch.

Rannsókn eftirlitsins leiddi einnig í ljós að starfsmaðurinn hafi vistað klámfengin gögn á USB-kubb, sem og í símann sinn. Því sé talið nokkuð ljóst að sími starfsmannsins hafi einnig sýkst af óværunni.

Eftirlitið ráðleggur bandarísku jarðfræðistofnuninni að banna fjölda klámsíðna, auk þess sem það ráðleggur starfsmönnum stofnunarinnar að tengja hvorki síma sína né USB-kubba við vinnutölvurnar. Vírusinn kunni enn að valda óskunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×