Fótbolti

Ajax útilokar að selja ungstirnin í janúar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Matthijs de Ligt er vægast sagt eftirsóttur
Matthijs de Ligt er vægast sagt eftirsóttur vísir/getty
Marc Overmars, fyrrum leikmaður Arsenal, Barcelona og Ajax, starfar nú sem yfirmaður íþróttamála hjá Ajax og ljóst að hann þarf að svara fjölda fyrirspurna frá stærstu liðum Evrópu mjög reglulega vegna fjölmargra efnilegra leikmanna hollenska liðsins.

Miðjumaðurinn Frenkie De Jong og miðvörðurinn Matthijs de Ligt eru líklega hvað eftirsóttastir um þessar mundir en Overmars segir að ekki komi til greina að selja leikmenn í janúar.

„Ég held að það sé nokkuð ljóst að það fær enginn að fara frá Ajax í janúarglugganum. Það eru engar líkar á því, alveg sama hverslags tilboð kemur inn á okkar borð,“ segir Overmars.

Það eru engin smálið á eftir þessum köppum en talið er að Barcelona og Manchester City séu tilbúin að punga út háum fjárhæðum fyrir De Jong. Sömu félög hafa einnig mikinn áhuga á de Ligt en það hefur Juventus til að mynda líka.

Þó Overmars segi þá ekki til sölu í dag gerir hann sér grein fyrir því að það verður erfitt að halda þeim hjá Ajax í framtíðinni.

„Við vitum að sumir af okkar leikmönnum eru komnir á það stig að verður ómögulegt að halda þeim hjá okkur. Ég held að við séum að tala um þrjá til fjóra leikmenn þó auðvitað viljum við ekki missa okkar bestu menn. Það er ekki eins og við séum að fara að selja alla lykilmenn okkar.“

„Stærstu lið Evrópu eru að skoða okkar leikmenn í hverri viku,“ segir Overmars, ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×