Enski boltinn

Man City ætlar að fara varlega með Kevin de Bruyne

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin de Bruyne.
Kevin de Bruyne. Vísir/Getty
Kevin de Bruyne er ekki enn byrjaður að spila með liði Manchester City eftir að hann meiddist í haust og það nýjasta úr herbúðum Englandsmeistaranna er að belgíski landsliðsmaðurinn spili ekki með liðinu alveg á næstunni.

Manchester City ætlar nefnilega að fara mjög varlega með Kevin de Bruyne í endurkomunni og það gætu verið tvær vikur í hann ennþá. Telegraph segir frá þessu og telur að Kevin de Bruyne gæti misst af toppslagnum á móti Chelsea í næsta mánuði.





Manchester City hefur haldið sínu striki þrátt fyrir fjarveru Belgans en stefnan er að passa upp á hann þar sem Kevin de Bruyne hefur verið afar óheppinn með meiðsli á þessu tímabili.

De Bruyne hefur aðeins spilað fimm leiki á leiktíðinni en hann spilaði síðast á móti Fulham í enska deildabikarnum 1. nóvember síðastliðinn.

Þetta er í annað skiptið sem hann dettur út á leiktíðinni því hann meiddist líka í fyrsta leik á móti Arsenal í ágúst og spilaði þá ekki aftur fyrr en í seinni hluta október. De Bruyne náði aðeins þremur leikjum áður en hann meiddist aftur.

Hinn 27 ára gamli Kevin de Bruyne er einn af mörgum stjörnum í ensku úrvalsdeildinni sem hafa ekki komist í besta form eftir að hafa eytt nær öllu sumrinum á HM í Rússlandi.

De Bruyne mun missa af leikjum á móti Bournemouth og Watford og svo missir hann líklega af Chelsea-leiknum líka.

Kevin de Bruyne skoraði í eina Meistaradeildarleiknum sínum á leiktíðinni en hefur ekki náð að koma að marki í þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Á síðasta tímabili þá var hann með 8 mörk og 16 stoðsendingar í 37 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og á fyrsta tímabili Pep Guardiola var hann með 6 mörk og 20 stoðsendingar í 36 deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×