Fótbolti

Kennir River Plate mafíunni um árásina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Öfgastuðningsmenn River Plate kalla sig Barra Brava,
Öfgastuðningsmenn River Plate kalla sig Barra Brava, Vísir/Getty
Í dag kemur væntanlega í ljós hvenær seinni úrslitaleikur River Plate og Boca Juniors í Copa Libertadores bikarnum verður spilaður en honum var frestað tvívegis um helgina.

Ráðist var á liðsrútu Boca Juniors á leiðinni á völlinn og slösuðust leikmenn liðsins, bæði vegna glerbrota úr rúðum rútunnar en einnig urðu margir fyrir slæmum áhrifum vegna táragas lögreglu.

Leiknum var fyrst seinkað nokkrum sinnum, síðan frestað um sólarhring og loks frestað um óákveðinn tíma daginn eftir. Fundað verður um framtíð leiksins í dag.

Nú telja menn sig líka vera búnir að finna aðalsökudólgana í áraásinni á liðsrútu Boca Juniors. Menn kenna nú River Plate mafíunni um áraásina.





Fótboltabullur River Plate eru kallaðir mafía argentínska fótboltans og borgarstjóri Buenos Aires bendir nú á þá. Heimurinn ætlaði að fylgjast með þessum úrslitaleik allra úrslitaleikja milli þessara nágrannaliða og erkifjenda en fékk í stað þess að upplifa það versta við argentínska fótboltann.

Horacio Rodriguez Larret, borgarstjóri Buenos Aires, er viss um að þarna hafi River Plate mafían, sem gengur undir nafninu Barra Brava, verið að hefna sín.

Vísir/Getty
Í aðdraganda leiksins réðst lögreglan inn í hús leiðtoga Barra Brava og gerði upptæka tíu milljón pesóa og 300 miða á úrslialeikinn.

„Vandamálið er Barra Brava, mafían sem hefur blandað sér inn í fótboltann okkar í meira en 50 ár. Þeir bera ábyrgð á þessu. 300 manns fengu ekki að fara inn á völlinn og þeir voru aðalpersónurnar í öllu sem gerðist þarna í aðdraganda leiksins,“ sagði Horacio Rodriguez Larret við BBC Radio 4.





Knattspyrnusamband Suður-Ameríku, Conmebol, mun hitta forseta Boca Juniors og River Plate klukkan eitt í dag að íslensum tíma og þar verður tekin ákvörðun um hvenær leikurinn fari fram.

Fyrri leikurinn fór fram á heimavelli Boca Juniors fyrir sextán dögum og endaði hann með 2-2 jafntefli. Það er því allt opið og allt undir í þessum síðari leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×