Arsenal komst aftur á sigurbraut

Dagur Lárusson skrifar
Aubameyang skorar sigurmarkið.
Aubameyang skorar sigurmarkið. vísir/getty
Arsenal komst aftur á sigurbraut í enska boltanum í dag þegar liðið bar sigurorð á Bournemouth á Vitality vellinum þar sem Aubameyang skoraði sigurmarkið.

 

Fyrir leikinn var Arsenal í sjötta sæti deildarinnar með 24 stig á meðan Bournemouth var sæti ofar með 21 stig.

 

Heimamenn í Bournemouth byrjuðu leikinn að miklum krafti og sóttu stíft fyrstu mínúturnar. David Brooks náði meira segja að koma boltanum í netið en dæmt var á hann rangstaða.

 

En þegar líða fór á fyrri hálfleikinn fóru liðsmenn Arsenal að vakna og náðu þeir forystunni á 30. mínútu þegar Kolasinac gaf fyrir inná teig Bournemouth og varð Jefferson Lerma fyrir því óláni að skora sjálfsmark. 

 

Allt stefndi í að Arsenal færi með forystuna í hálfleikinn en Bournemouth náði hinsvegar góðri skyndisókn á síðustu sekúndum fyrri hálfleiksins sem endaði með því að Joshua King jafnaði metin, staðan því 1-1 í hlé.

 

Í seinni hálfleiknum réð Arsenal algjörlega ferðinni og sótti stíft en Bournemouth átti þó eina og eina skyndisókn. En það var síðan á 64. mínútu þegar Arsenal náði forystunni á nýjan leik með marki frá Aubameyang eftir undirbúning frá Kolasinac.

 

Liðsmenn Bournemouth reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en náðu því ekki og því fyrsti deildarsigur Arsenal í fjórum leikjum staðreynd.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira