Enski boltinn

Solskjær ætlar ekki að breyta um fyrirliða hjá United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Valencia með fyrirliðabandið.
Antonio Valencia með fyrirliðabandið. Getty/Quality Sport Images
Ole Gunnar Solskjær, nýr knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar ekki að taka fyrirliðabandið af Ekvadoranum.

Hægri bakvörðurinn Antonio Valencia verður því áfram fyrirliði Manchester United þegar hann kemur til baka úr meiðslum.

„Antonio er fyrirliði liðsins þegar hann er leikfær. Hann þarf nú að fara í gegnum nokkrar erfiðar æfingar til að hann sé klár fyrir annasamar vikur,“ sagði Ole Gunnar Solskjær á blaðamannafundi í dag.

„Það eru ekki til margir betri hægri bakverðir og þið munuð sjá hann vera með fyrirliðabandið,“ sagði Solskjær.





Antonio Valencia var fyrirliði Manchester United á síðasta tímabili en hann tók við þeim skyldum af Michael Carrick. Á undan Carrick var Wayne Rooney aðalfyrirliði United liðsins.

Michael Carrick spilaði hinsvegar ekki mikið á tíma sínum sem fyrirliði og því kom það mikið í hlut Valencia að bera fyrirliðabandið. Carrick hætti síðan síðasta vor og Antonio Valencia tók formlega við sem aðalfyrirliði Manchester United.  Hann er fyrsti aðalfyrirliði í sögu Manchester United sem er ekki frá Evrópu.





Antonio Valencia hefur ekki spilað með Manchester United í deildinni síðan í september en hefur verið fyrirliði í þeim fjórum deildarleikjum sem hann hefur spilað.

Bakvörðurinn Ashley Young (á móti Cardiff) og markvörðurinn David De Gea (á móti Huddersfield) hafa verið með fyrirliðabandið í fyrstu tveimur leikjunum undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. Young var líka fyrirliðinn í síðustu deildarleikjum Jose Mourinho.

Aðrir sem hafa borið fyrirliðabandið hjá United í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu eru Chris Smalling og Paul Pogba.

Síðustu aðalfyrirliðar Manchester United:

Bryan Robson 1982–1994

Steve Bruce 1992–1996

Eric Cantona 1996–1997

Roy Keane  1997–2005

Gary Neville 2005–2011

Nemanja Vidic     2011–2014

Wayne Rooney 2014–2017

Michael Carrick 2017–2018

Antonio Valencia 2018–




Fleiri fréttir

Sjá meira


×