Enski boltinn

Valkvíði hjá Ole Gunnar Solskjær: Allt í einu kominn með sex framherja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær var léttur á blaðamannafundinum.
Ole Gunnar Solskjær var léttur á blaðamannafundinum. Getty/Matthew Peters/Man Utd
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hélt blaðamannafund í morgunsárið þar sem hann fór meðal annars yfir leikmannamál United liðsins.

Tveir öflugir framherjar hafa misst af tveimur fyrstu leikjum Manchester United undir stjórn Norðmannsins en það eru Romelu Lukaku og Alexis Sanchez. Anthony Martial missti síðan af síðasta leik.





Solskjær sagði að þeir þrír hefðu allir tekið létta æfingu í gær en staðan á þeim komi betur í ljós á æfingu United-liðsins í dag. Framundan er leikur á móti Bournemouth á Old Trafford.

Anthony Martial spilaði vel í fyrsta leik United undir stjórn Ole Gunnar Solskjær en missti síðan af leiknum á móti Huddersfield á öðrum degi jóla.

En komast þeir Romelu Lukaku og Alexis Sanchez hreinlega í liðið? United hefur skorað átta mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum undir stjórn Norðmannsins.





„Ég get ekki sagt það núna. Ég hef verið að skoða leikmannahópinn og við erum með svo margra góða leikmenn. Í slíkri stöðu horfir maður bjartsýnum augum á næstu leiki,“ sagði Ole Gunnar.

„Við erum með mikið sjálfstraust í okkar liði. Það er aftur á móti öðruvísi þegar þú ert stuðningsmaður því þá er auðvelt að segja hver á að spila,“ sagði Ole Gunnar og það má búast við smá valkvíða hjá honum þegar hann er kominn með fullfrískan leikmannahóp.

„Allt í einu er ég kominn með sex framherja. Ég er núna með Romelu, Alexis, Anthony, Jesse, Marcus og Juan,“ sagði Ole Gunnar.





Paul Pogba hefur blómstrað síðan að Solskjær tók við en getur hann haft sömu jákvæðu áhrif á þá Romelu Lukaku og Alexis Sanchez? Þeir voru líka langt frá sínu besta undir stjórn Jose Mourinho.

„Ég geri ekki hlutina fyrir þá inn á vellinum. Paul Pogba tókst það og ég hef rætt við þá Anthony, Romelu og Alexis. Ég er hér til að beina þeim í rétt átt og það er síðan undir þeim komið að standa sig inn á vellinum. Þeir verða að nýta tækifærið þegar það kemur. Þannig er staða fótboltamannsins, hann verður að gera hlutina sjálfur inn á vellinum,“ sagði Ole Gunnar.

„Ég hef gefið leikmönnum ákveðnar viðmiðunarreglur um hvernig þeir eiga að haga sér og tjá sig. Þannig hef ég alltaf haft það sem stjóri. Ég legg áherslu á að þeir njóti þess að spila fyrir þetta félag vegna þess að þetta er besti tíminn í þeirra lífi. Það er ekkert alslæmt að vera stjóri þess í smá tíma,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×