Innlent

Segir metsölu á skötu í ár

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Ekki eru allir hrifnir af skötulyktinni.
Ekki eru allir hrifnir af skötulyktinni.
Ljóst er að mörg heimili munu ilma af skötu í dag en metsala hefur verið á skötu í ár að sögn framkvæmdastjóra Fiskikóngsins. Þar að auki hófst sala mun fyrr en vanalega.

Á fjölmörgum heimilum er rótgróin hefð að borða skötu á Þorláksmessu. Ljóst er að ekki líkar öllum hefðin en við greindum frá því í vikunni að alvarlegar nágrannerjur vegna skötulyktar lendi reglulega á borði húseigendafélagsins. Óvinum skötunnar bregður því eflaust í brún við að heyra að metsala hafi verði af skötu í ár en framkvæmdastjóri Fiskikóngsins sér um 20-25% aukningu á milli ára.

„Skötusalan hefur yfirleitt verið að fara í gang svona um 19. desember, en í ár byrjaði hún um 13. desember, sem er mjög óvanalegt. Þorláksmessa ber ekki alltaf upp á sama dag. Núna er hún á sunnudegi sem gerir það að verkum að fyrirtæki og stofnanir eru ekki með skötu í hádeginu og þá eldar fólk hana frekar heima hjá sér sem og á veitingahúsinu. Ástæðuna veit ég svo sem ekki en ég hugsa að Íslendingar vilji einfaldlega halda upp á góðar hefðir,“ sagði Kristján Berg, framkvæmdastjóri Fiskikóngsins.

22. desember er ár hvert söluhæsti dagurinn en búist er við því að salan verði einnig góð í dag, að minnsta kosti fram að miðjum degi.

„Til marks um það hvað það er mikið að gera að þá eru vanalega 3-4 að selja fisk dags daglega. En við erum 15 í dag, þrátt fyrir lítinn fermetrafjölda í búðinni. Það er mikil stemning, fólk er glatt og ég óska öllum gleðilegra jóla,“ sagði Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×