Innlent

Stysti dagur ársins í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stysti dagur ársins er í dag svo við sjáum meira af mánanum en sólinni.
Stysti dagur ársins er í dag svo við sjáum meira af mánanum en sólinni. vísir/vilhelm
Vetrarsólstöður verða klukkan 22:23 í kvöld sem þýðir að dagurinn fram undan er sá stysti á árinu.

Að því er fram kemur á Stjörnufræðivefnum þýðir þetta að halli norðurhvels Jarðarinnar frá sólu er mestur á þessum tíma þannig að sólin er lægst á lofti frá okkur séð og birtustundirnar því fæstar. Eftir daginn í dag tekur svo að birta á ný.

Í dag mun sól rísa klukkan 11:22 í Reykjavík en svo sest hún klukkan 15:29. Birtustundirnar verða því aðeins fjórar klukkustundir og sjö mínútur en eftir tæpan mánuð verða birtustundirnar orðnar rúmlega fimm svo dagurinn lengist býsna hratt.

 

Á Akureyri rís sólin í dag klukkan 11:38 og sest svo klukkkan 14:42. Full dagsbirta er því þar í einungis þrjár klukkustundir og fjórar mínútur en í Grímsey eru birtustundirnar fæstar, aðeins rúmlega tveir klukkutímar.

„Vetrarsólstöður marka upphaf vetrar á norðurhveli en upphaf sumars á suðurhveli – ef við skilgreinum árstíðirnar milli sólstaða og jafndægra,“ segir á Stjörnufræðivefnum þar sem lesa má meira um vetrarsólstöður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×