Innlent

Sigrún Helga segir greinilegt að háskólinn ætli að sópa málinu undir teppi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigrún Helga Lund.
Sigrún Helga Lund.
Sigrún Helga Lund, sem í gær sagði upp sem prófessor í líftölfræði í Háskóla Íslands vegna meintrar áreitni yfirmanns, segir í yfirlýsingu sem hún hefur sent fjölmiðlum að Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, geri lítið úr siðareglum háskólans með því að bregðast ekki við í máli hennar. Viðbrögð hans hafi valdið henni vonbrigðum og greinilegt sé að það eigi að sópa málinu undir teppið.

Sigrún Helga steig fram í gær og lýsti því að hún hefði fyrst sumarið 2016 kvartað undan erfiðum samskiptum og kynferðislegu háttalagi yfirmanns síns hjá háskólanum. Hún nafngreindi ekki yfirmanninn en síðar um daginn sendi Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við læknadeild Íslands, frá sér yfirlýsingu þar sem hann hafnaði öllum ásökunum.

Segir ekki tekið á kynferðislegri áreitni í siðareglum

Í yfirlýsingu Sigrúnar í dag segir að hún hafi gefið það upp sem ástæðu fyrir uppsögn sinni að ekki hefði verið tekið á kæru hennar til siðanefndar HÍ vegna óviðeigandi framkomu yfirmanns.

Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ.Kristinn Ingvarsson
„Ekki er tekið á kynferðislegri áreitni í siðareglum háskólans og því sneri kæran ekki beint að henni. Siðanefnd háskólans taldi yfirmann Sigrúnar hins vegar sekan um að hafa brotið gegn þremur ákvæðum siðareglna, hann hafi ekki sýnt Sigrúnu Helgu virðingu og látið persónuleg tengsl hafa áhrif á samvinnuna. Alvarlegasta brotið var talið snúa að því ákvæði sem fjallar um mismunun, meðal annars á grundvelli kyns og einelti á vinnustað. Þá taldi nefndin að sannanir skorti fyrir því að sögusagnir og dreifing á meiðandi ummælum um Sigrúnu væru á ábyrgð hans, en sagði þó að „ætla mætti að tengsl væru þar á milli,“ segir í yfirlýsingu.



„Ekki einsdæmi því miður“

Þá segir jafnframt að þessi niðurstaða hafi legið fyrir um miðjan júlí. Þó hafi engin viðbrögð komið frá rektor og segir Sigrún óbærilegt að vinna við slíkar kringumstæður. Yfirmaðurinn sé í stöðu til þess að gera lítið úr henni og hennar vinnu og úrskurðurinn hafi engin áhrif. 

„Ég vildi að siðanefnd tæki afstöðu til þess hvort það væri eðlilegt að yfirmenn innan Háskólans væru að reyna að sofa hjá undirmönnum sínum og það hefði áhrif á starfsöryggi þeirra og framgang á vinnustað. Þetta er ekki einsdæmi því miður. Margir höfðu samband við mig eftir að fjallað var um málið í gær.  Fólk sem hefur sömu sögu að segja og vill gjarnan ræða við fjölmiðla,““ er haft eftir Sigrúnu í yfirlýsingunni. 

Einnig segir í yfirlýsingunni að Sigrún Helga hafi hitt rektor á fundi í gær eftir að fjallað var um málið í fjölmiðlum: 

„Þar segir hún að hann hafi skýrt frá því að hann hafi aldrei skoðað úrskurðinn eða sett sig inn í málið.

Mál þeirra Sigurðar Yngva og Sigrúnar Helgu hafa vakið mikla athygli.Mynd/Samsett

Sigurður hafnaði ásökunum

Í kjölfar þess að hún sagði upp stöðu sinni í gær kom yfirlýsing frá Sigurði Yngva Kristinssyni, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands þar sem hann hafnar alfarið ásökunum um að hafa áreitt Sigrúnu Helgu. 

„Ég ætlaði aldrei að fara út í nafnbirtingar eða neitt slíkt, leðjuslagur þjónar engum tilgangi“ segir Sigrún.  

„Hann velur að fara fram með þessum hætti. Ég er mjög hneyksluð á þessum viðbrögðum en hann getur auðvitað valið að segja ósatt til að fegra sinn hlut. Hann þarf greinilega ekki að óttast viðbrögð háskólarektors.“



Segir óbærilegt að starfa innan skólans

Sigrún Helga gagnrýnir að stjórnendur HÍ hafi ekki brugðist við niðurstöðu siðanefndar með einhverjum hætti, þar sem reglur hafi verið brotnar. „Það er alvarlegt mál að háskólarektor lítilsvirði siðanefndina með þessum hætti. Ef það hefur engar afleiðingar í för með sér að brjóta reglurnar hefur siðanefndin enga þýðingu.“

Hún segir að fram hafi komið í máli rektors í dag að þar sem málið verðskuldi ekki formlega áminningu geti hann ekki brugðist við með öðrum hætti. „Það er frekar ódýrt að fórna mér og mínu mannorði af því þeir hafa ekki getu til að standa með konum í þessari aðstöðu á sama tíma og þeir eru að gera mikið úr jafnrétti innan skólans. Það er alveg ljóst að þegar stjórnendur skólans hafa ekki kjark til að ljúka málinu er óbærilegt fyrir mig að starfa innan skólans,“ segir í yfirlýsingu Sigrúnar Helgu.


Tengdar fréttir

„Hvernig heldurðu að það sé fyrir mig?"

Kona sem sagði upp prófessorstöðu við Háskóla Íslands í dag vegna meintar áreitni yfirmanns telur rektor hafa brugðist sér. Hún hafi engin viðbrögð fengið eftir að hafa lagt margs konar gögn sem hún telur hafa sannað mál sitt. Yfirmaður hennar vísar ásökunum á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×