Fótbolti

Balotelli fær lengra vetrarfrí til að ákveða framtíð sína

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vieira hefur ekki tekist að fá það besta út úr Balotelli
Vieira hefur ekki tekist að fá það besta út úr Balotelli vísir/getty
Ítalska skemmtikraftinum Mario Balotelli hefur verið veitt lengra vetrarfrí með það fyrir augum að hann nýti fríið til að taka ákvörðun um framtíð sína.

Samningur Balotelli við franska úrvalsdeildarliðið Nice rennur út næsta sumar en hann hefur skorað 43 mörk í 76 leikjum síðan hann gekk í raðir félagsins sumarið 2016 en ekkert þeirra marka hefur komið á yfirstandandi leiktíð þar sem hann hefur ekki enn skorað þrátt fyrir að hafa spilað 10 leiki.

„Ég hef gefið Mario nokkra aukadaga í frí til að hugsa um framtíð sína og gefa honum svigrúm til að ákveða hvað hann vill gera,“ segir Patrick Vieira, fyrrum fyrirliði Arsenal og nú þjálfari Nice.

Balotelli var nálægt því að ganga í raðir Marseille síðasta sumar en það fór í vaskinn á síðustu stundu.

Balotelli er 28 ára gamall og hefur leikið fyrir stórlið á borð við Inter Milan, Liverpool, Man City og AC Milan á litríkum ferli sínum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×