Enski boltinn

Hughes ósáttur við Stoke: „Ég var þeirra sigursælasti stjóri“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mark Hughes upplifði ekki sjö dagana sæla síðustu vikur sínar hjá Stoke
Mark Hughes upplifði ekki sjö dagana sæla síðustu vikur sínar hjá Stoke vísir/getty
Mark Hughes er ósáttur við fyrrum vinnuveitendur sína hjá Stoke City eftir að eigendur félagsins sögðu að þeir hefðu átt að reka hann fyrr.

Feðgarnir Peter og John Coates sögðu eftir að ljóst var að Stoke hefði fallið úr úrvalsdeildinni eftir 10 ára samfellda veru að „stuðningsmennirnir munu gera athugasemdir við það hvort við hefðum átt að skipta um stjóra fyrr. Sem fjölskylda erum við mjög trygg og tryggðin hefur komið sér vel fyrir okkur í viðskiptalífinu. Hins vegar þegar við horfum til baka þá hefðum við kannski átt að gera breytingar fyrr.“

Hughes var rekinn í janúar eftir að D-deildar lið Coventry sló Stoke út úr ensku bikarkeppninni og liðið var komið í fallbaráttu í ensku úrvalsdeildinni. Walesverjinn tók þá við Southampton og er svo gott sem búinn að tryggja sæti Dýrlinganna í úrvalsdeildinni, mjög fjarlægur tölfræðimöguleiki gæti enn séð Swansea stela 17. sætinu á lokadegi deildarinnar á morgun.

Stoke endaði þrisvar í níunda sæti í úrvalsdeildinni undir stjórn Hughes, sem er þeirra besti árangur frá upphafi. Liðið var í 16. sæti með aðeins einn sigur úr síðustu átta leikjum þegar hann var rekinn frá félaginu.

„Þetta var erfitt tímabil. Ég er svolítið vonsvikinn að allur góði árangurinn sem við náðum á þeim fjórum og hálfu ári sem ég var hér hefur verið þurrkaður út úr sögu félagsins í huga sumra,“ sagði Hughes.

„Allir geta séð að ég var sigursælasti stjóri félagsins í úrvalsdeildinni. Minn tími endaði ekki eins og ég hefði á kosið, en ég og allt mitt starfsfólk gáfum allt sem við gátum í okkar starf.“

Leikur Southampton og Manchester City verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 6 á morgun frá klukkan 13:50.


Tengdar fréttir

Hughes rekinn eftir tapið gegn Coventry

Stoke sendi frá sér tilkynningu í kvöld þar sem fram kemur að Mark Hughes hafi verið sagt upp störfum sem knattspynrstjóri félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×