Erlent

Alan Alda með parkinsonsveiki

Kjartan Kjartansson skrifar
Alda segist hafa ákveðið að segja frá veikindum eftir að hann tók eftir að hægt var að sjá þumalfingur hans kippast til í viðtölum sem hann hefur veitt nýlega. Því hefði aðeins verið tímaspursmál hvenær sagt yrði frá veikindum hans.
Alda segist hafa ákveðið að segja frá veikindum eftir að hann tók eftir að hægt var að sjá þumalfingur hans kippast til í viðtölum sem hann hefur veitt nýlega. Því hefði aðeins verið tímaspursmál hvenær sagt yrði frá veikindum hans. Vísir/EPA
Bandaríski leikarinn Alan Alda sem kunnastur er fyrir hlutverk í sjónvarpsþáttunum „M*A*S*H“ hefur greint frá því að hann glími við parkinsonsveiki. Alda, sem er 82 ára gamall, segist hafa verið greindur með sjúkdóminn fyrir rúmum þremur árum og hafa lífað góðu lífi með honum.

Leikarinn sagði frá veikindum sínum í morgunþætti CBS-sjónvarpsstöðvarinnar í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem hann segir opinberlega frá þeim.

„Ástæðan fyrir að ég vil tala um það opinberlega er að ég hef lifað fullnægjandi lífi síðan þá,“ sagði Alda sem æfir meðal annars hnefaleika þrisvar í viku.

Parkinsonsveiki er heilahrörnunarsjúkdómur en honum getur fylgt skjálfti, erfiðleikar með hreyfingu, talmein og minnisglöp.

Alda lék Benjamin Franklin „Hawkeye“ Pierce liðsforingja í sjónvarpsþáttaröðinni „M*A*S*H“ frá 1972 til 1983. Síðar lék hann forsetaframbjóðanda í „Vesturálmunni“ og var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í myndinni „Flugmaðurinn“ árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×