Fótbolti

Heimir hefur ekki rætt við Basel

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hvað tekur við hjá Heimi?
Hvað tekur við hjá Heimi? vísir
Heimir Hallgrímsson er orðaður við svissneska stórveldið Basel í þarlendum fjölmiðlum en í gær birti fjölmiðill að nafni LaReg­i­o­ne viðtal við Heimi þar sem hann er spurður út í orðróminn.

Ég hef sjálfur ekki rætt við forráðamenn Basel en það er klárlega áhugaverður kostur. Ég held að allir þjálfarar í heiminum myndu vilja stýra jafn glæsilegu félagi,“ er haft eftir Heimi.

Samkvæmt heimildum LaRegione hafa forráðamenn Basel hins vegar verið í viðræðum við umboðsmann Heimis en félagið leitar að knattspyrnustjóra eftir að Raphael Wicky var látinn taka pokann sinn á dögunum eftir tap gegn PAOK í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Basel tapaði sömuleiðis í fyrstu umferð svissnesku úrvalsdeildarinnar gegn St.Gallen auk þess sem liðinu gekk afar illa á undirbúningstímabilinu. Fyrrum leikmaður félagsins, Alexander Frei, tók tímabundið við stjórastöðunni og leitar félagið nú að nýjum framtíðarstjóra.

Basel er langsigursælasta félag Sviss á þessari öld. Liðið vann deildina átta ár í röð frá 2010-2017 en hafnaði í 2.sæti á síðustu leiktíð þar sem Young Boys hafði betur og vann deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×