Fótbolti

Verðlagið Neymar að kenna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Neymar er dýrasti leikmaður sögunnar
Neymar er dýrasti leikmaður sögunnar Vísir/Gety
Varaforseti Barcelona Jordi Mestre segir að hegðun Neymar í kringum söluna á honum til Paris Saint-German sé ástæða verðlagsins í fótboltanum í dag.

„Við hefðum getað sparað okkur mikinn pening og mikla umfjöllun,“ sagði Mestre.

Neymar var seldur fyrir 220 milljónir evra til PSG síðasta sumar sem gerði hann að dýrasta leikmanni sögunnar. Hann hafði skrifað undir nýjan fimm ára samning hjá spænska liðinu í júlí 2016 sem innihélt meðal annars framlengingarbónus upp á 8,5 milljónir evra.

„Ef hann hefði komið til okkar og látið okkur vita af því að hann vildi fara þá hefðum við getað komist að samkomulagi.“

„Hann sagði ekkert við okkur. Ef hann hefði gert það hefði PSG getað fengið hann fyrir minni upphæð og við hefðum ekki þurft að borga eins mikið fyrir nýja leikmenn,“ sagði Mestre.

Í nýja samningi Neymar við Barcelona var klásúla um aukagreiðslur vegna hollustu við félagið upp á 26 milljónir evra. Barcelona ákvað að greiða Neymar ekki þennan bónus við félagskiptin til PSG.

„Þegar við sáum í hvað stefndi ákváðum við að borga ekki hollustubónusinn,“ sagði Mestre.

Þessi ákvörðun Barcelona er undir skoðun hjá FIFA eftir að Neymar lagði inn formlega kvörtun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×