Fótbolti

Rúnar Már klúðraði vítaspyrnu í hádramatísku tapi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rúnar Már á ferðinni í leik með Grasshopper
Rúnar Már á ferðinni í leik með Grasshopper visir/epa
Mótið fer ekki vel af stað hjá Rúnari Má Sigurjónssyni og félögum hans í Grasshopper í svissnesku úrvalsdeildinni en liðið tapaði í dag sínum þriðja leik í röð er stigalaust á botni deildarinnar eftir þrjár umferðir.

Í dag heimsótti Grasshopper stórveldið Basel sem hefur sömuleiðis verið í miklum vandræðum í upphafi leiktíðar og var Heimir Hallgrímsson orðaður við stjórastöðuna á dögunum. Í dag lék liðið hins vegar sinn fyrsta leik undir stjórn Marcel Koller.

Skemmst er frá því að segja að Basel vann næsta öruggan 4-2 sigur eftir að hafa komist í 4-0. Basel lék manni færri frá 60.mínútu en þá var staðan 2-0, Basel í vil. Manni færri tókst þeim að auka forystuna en gestirnir neituðu þó að gefast upp fyrr en í fulla hnefana og fóru í gang frekar ótrúlegar lokamínútur.

Á 72.mínútu minnkaði Nabil Bioui muninn í 4-1 og níu mínútum síðar steig Rúnar Már á vítapunktinn en lét verja frá sér. Marco Djuricin minnkaði engu að síður muninn í 4-2 á 87.mínútu og á 90.mínútu fékk Grasshopper aftur vítaspyrnu. Nú steig Djuricin á vítapunktinn en klúðraði einnig. Lokatölur því 4-2.

Rúnar Már lék allan leikinn á miðju Grasshopper og bar fyrirliðabandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×