Fótbolti

Basel búið að ráða þjálfara | Heimir ekki að taka við

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Heimir Hallgrímsson tekur ekki við Basel
Heimir Hallgrímsson tekur ekki við Basel Vísir/Getty
Heimir Hallgrímsson tekur ekki við svissneska stórveldinu Basel þar sem félagið réði í gær Marcel Koller, fyrrum landsliðsþjálfara Austurríkis, til starfa.

Svissneskir fjölmiðlar hafa orðað Heimi við starfið á undanförnum dögum og segja félagið hafa verið í viðræðum við umboðsmann Heimis.

Koller hefur mikla reynslu úr svissneska boltanum en hann gerði St. Gallen og Grasshoppers að meisturum þar í landi í kringum aldamótin. Hann hafði einnig starfað í þýsku Bundesligunni áður en hann gerðist landsliðsþjálfari Austurríkis árið 2011 og stýrði því þar til í fyrra.

Hann var við stjórnvölin þegar Ísland lagði Austurríki að velli á EM í Frakklandi árið 2016.

Basel er sigursælasta félag Sviss í seinni tíð en hefur byrjað tímabilið afar illa og féll til að mynda úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar á miðvikudag þegar liðið beið lægri hlut fyrir PAOK frá Grikklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×