Arsenal mætir City í úrslitum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Eden Hazard.
Eden Hazard. Vísir/Getty
Arsenal komst í úrslit enska deildarbikarsins eftir sigur á Chelsea í seinni undanúrslitaviðureign liðanna á Emirates í kvöld.

Leikurinn byrjaði frábærlega með marki frá Eden Hazard strax á sjöundu mínútu eftir að Pedro sundraði vörn Arsenal með einni sendingu. Heimamenn voru þó ekki lengi að jafna metin en skalli Nacho Monreal fór í Marcos Alonso og Antonio Rudiger og þaðan í markið. Mikill heppnisstimpill yfir því marki, en staðan 1-1 eftir 12 mínútna leik.

Fyrri hálfleikur var mjög fjörugur og áttu bæði lið nóg af færum, en mörkin voru þó ekki fleiri og liðin gengu jöfn til búningsherbergja.

Það var aðeins meiri ró yfir seinni hálfleik, en á 59. mínútu kom Granit Xhaka Arsenal yfir. Aftur var Rudiger mikill áhrifavaldur í marki Arsenal, en fyrirgjöf Alexandre Lacazette fór af fæti Rudiger og féll fyrir Xhaka sem kláraði færið.

Chelsea gerði hvað þeir gátu að jafna leikinn, en gestirnir voru frekar bitlausir í sóknarleik sínum og svo fór að Arsenal sigraði 2-1 og mætir Manchester City á Wembley vellinum í úrslitaleiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira