Fótbolti

Einum besta leikmanni heims var sagt að halda kjafti og spila fótbolta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hope Solo var rekin úr landsliðinu en sækist nú eftir forsetastól bandaríska knattspyrnusambandsins.
Hope Solo var rekin úr landsliðinu en sækist nú eftir forsetastól bandaríska knattspyrnusambandsins. getty
Hope Solo, fyrrverandi markvörður bandaríska landsliðsins í fótbolta, sækist nú eftir forsetastól bandaríska knattspyrnusambandsins en baráttan um forsetaembættið er orðin ansi hörð.

Fjölmiðlar hafa nú aðeins beint spjótum sínum að markaðs, fjölmiðla- og styrktarfyrirtækinu SUM (Soccer United Marketing) sem græðir á tá og fingri á bandaríska fótboltanum og sérstaklega stærstu deildinni þar í landi, MLS.

Stjórnarformaður fyrirtækisins er Don Garber sem er einmitt framkvæmdastjóri MLS-deildarinnar og kona að nafni Kathy Carter er forseti SUM en hún er einnig að bjóða sig fram sem forseti bandaríska knattspyrnusambandsins.

Hope Solo er einn besti markvörður sögunnar.

Fékk ekki krónu

„Við þurfum að komast til botns í málum þessa fyrirtækis. Ég hef mínar skoðanir á þessu en þetta snýst allt um peninga,“ segir Solo í viðtali við The Guardian.

SUM rakar inn peningum fyrir fótboltann í Bandaríkjunum en það sem er skrítið er að stjórnarmenn þess eru eigendur liðanna í MLS-deildinni og skrifstofa SUM er skráð í sama húsi og skrifstofa MLS. Eina sem hægt er að finna um SUM á netinu er lítil undirsíða á heimasíðu MLS-deildarinnar.

Solo veit sitthvað um SUM og peningamálin í bandaríska boltanum. Hún var í forgrunni baráttu bandaríska kvennalandsliðsins þegar kom að því að fá jafnmikið greitt og karlarnir en hún lenti einnig upp á kant við SUM þegar að hún vildi fá greitt fyrir notkun fyrirtækisins á ímynd hennar í myndbandi sem var gert til að auglýsa bandaríska fótboltann.

„Ég fékk ekki krónu fyrir það,“ segir Solo. „Ég byrjaði að spyrja spurninga og sagði að ég myndi ekki samþykkja myndbandið en það átti að birtast fyrir Ólympíuleikana árið 2016.“

Solo er mikil baráttukona.getty

Bankaði á rangar dyr

„Ég fór að fá svör í tölvupóstum til baka þar sem var eitthvað lögfræðirugl. Í raun og veru var verið að segja að þetta kæmi mér ekki við. Ég átti bara að halda kjafti og spila fótbolta.“

„Þarna vissi ég að ég var að banka á dyr sem ég átti ekkert að vera að banka á. Það var ekki löngu síðar að ég var rekin úr landsliðinu fyrir að nota orðið „hugleysingjar“,“ segir Hope Solo.

Solo kallaði sænska landsliðið hugleysingja fyrir að verjast nánast allan leikinn á móti Bandaríkjunum í útsláttarkeppni Ólympíuleikana en refsing hennar var nokkurra mánaða mann frá landsliðinu sem gerði á endanum út um landsliðsferil hennar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×