Fótbolti

Sektaður af sínu eigin félagi fyrir káfa á nára mótherja síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hvað varstu að gera maður?
Hvað varstu að gera maður? Vísir/Getty
Matt Miazga er leikmaður Chelsea en á láni hjá hollenska félaginu Vitesse Arnhem. Hollendingarnir eru hinsvegar ekki alltof ánægðir með strákinn eftir leik hans í síðasta mánuði.

Vitesse Arnhem var þar að spila við Heerenveen í hollensku deildinni og gerði 1-1 jafntefli. Það var meðferð leikmanna Vitesse Arnhem á Heerenveen-leikmanninum Denzel Dumfries sem stal þó sviðsljósinu eftir leikinn.

Það sást meðal annars vel á myndbandi þegar Matt Miazga kleip andstæðing sinn á viðkvæmum stað í náranum og það kostaði á endanum sitt þótt að dómari leiksins hafi ekki refsað honum í leiknum sjálfum.

Vitesse Arnhem ákvað á endanum að sekta hinn 22 ára gamla Matt Miazga fyrir káfið og félagið sektaði líka Tim Matavz sem gaf fyrrnefndum Denzel Dumfries vænt olnbogaskot í fyrrnefndum leik.

Tim Matavz fékk einnig fjögurra leikja bann fyrir það. Það má sjá þessi tvö atvik í myndbandinu hér fyrir neðan en fyrir þá sem kunna hollensku þá er Denzel Dumfries þarna spurður út í meðferðina á honum í þessum leik.





„Við höfum sektað báða leikmenn því hegðun þeirra gengur þvert á háttvísireglur félagsins,“ sagði í yfirlýsingu frá Vitesse Arnhem.

Matt Miazga er bandarískur landsliðsmaður og kom til Chelsea frá New York Red Bulls í janúar 2016 fyrir 3,5 milljónir punda. Hann hefur verið í láni hjá Vitesse Arnhem síðan í byrjun 2016-17 tímabilsins.

Tim Matavz er 29 ára slóvenskur landsliðsmaður sem kom til Vitesse Arnhem á síðasta ári.

Fórnarlambið er hinn 21 árs gamli hægri bakvörður Denzel Dumfries sem er á sínu fyrsta tímabilið með Heerenveen. Hann hefur spilað tvo landsleiki fyrir Arúba sem er eyja í Karíbahafi norður af Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×