Erlent

Lést þegar loftbelgur hrapaði til jarðar

Atli Ísleifsson skrifar
Frá slysstaðnum fyrir utan Luxor í Egyptalandi.
Frá slysstaðnum fyrir utan Luxor í Egyptalandi. Vísir/AFP
Einn maður lést þegar loftbelgur, með tuttugu manns innanborðs, hrapaði til jarðar í Egyptalandi. Frá þessu greina egypskir ríkisfjölmiðlar.

Slysið varð skammt frá borginni Luxor, en að sögn talsmanns heilbrigðisyfirvalda voru flestir farþeganna ferðamenn. Slysið er rakið til mikilla vinda á svæðinu.

Mahmoud Badr, ríkisstjóri Luxor, segist hafa heimsótt eitt sjúkrahúsanna þar sem slasaðir farþegar voru fluttir, en enn liggur ekki fyrir um hvort einhverjir aðrir farþegar sem slösuðust séu í lífshættu.

Nítján manns fórust í loftbelgsslysi í Luxor árið 2013 sem rekja mátti til gasleka. Þá slösuðust þrettán ferðamenn um borð í loftbelg í Luxor árið 2009 þegar belgurinn rakst á fjarskiptamastur.

Egypsk stjórnvöld ákváðu í kjölfar slysanna að skylda rekstraraðila að koma myndavélum fyrir í belgunum, auk þess að þeim er bannað að fljúga í meira en tvö þúsund metra hæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×