Innlent

Ungur ökumaður stökk ölvaður út úr bifreið á ferð með lögregluna á hælunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Neskaupstað.
Frá Neskaupstað. ja.is
Íbúar í Neskaupstað vöknuðu upp við sírenuhljóm sem ómaði um bæinn aðfaranótt sunnudags. Ástæðan var sú að ölvaður ökumaður hafði tekið bifreið ófrjálsri hendi á Eskifirði og lagt leið sína til Neskaupstaðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.

Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og ók á ofsahraða í gegnum bæinn þar sem fólk var á ferli við skemmtistaði og skapaðist við það mikil hætta. Eftirförinni lauk þegar ástand bifreiðarinnar var orðið þannig að hún var orðin óökuhæf og ökumaðurinn stökk út úr henni á ferð í miðbænum í Neskaupstað.

Var mannlausa bifreiðin stöðvuð með því að aka lögreglubifreið í veg fyrir hana. Lögreglan hafði svo hendur í hári ökumannsins unga stuttu síðar en hann reyndist ekki vera kominn með aldur til að fá ökuréttindi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×