Erlent

Bjargað eftir 12 klukkustundir í skolpi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Handafar sem kom leitarmönnum á sporið sést hér fyrir miðri mynd.
Handafar sem kom leitarmönnum á sporið sést hér fyrir miðri mynd. Vísir/AP
Þrettán ára gömlum dreng var bjargað á sunnudag eftir að hafa flotið um í hinu ógnarstóra skolpkerfi Los Angeles-borgar í 12 klukkustundir.

Jesse Hernandez og vinir hans höfðu gert sér það að leika að labba á viðarplönkum sem búið var að leggja yfir brunn sem lá niður í skolpkerfið. Þegar einn plankanna brotnaði hrapaði Hernandez næstum 8 metra ofan í skolpið, sem þaut á fleygiferð að sögn talsmanns slökkviliðs borgarinnar.

Vinir stráksins gerðu foreldrum viðvart sem höfðu umsvifalaust samband við neyðarlínuna. Hófst þá heljarinnar leit að Hernandez sem átti eftir að standa yfir í 12 klukkustundir.

 

Jesse Hernandez er hrósað fyrir að hafa aldrei misst vonina.Slökkvilið Los Angeles
Skolpkerfi Los Angeles er gríðarstórt og líkast völundarhúsi að sögn The Guardian, enda borgin ein sú fjölmennasta í heimi og salernin því all nokkur.

Björgunarsveitir notuðust við margvísleg tæki og tól við leitina, eins og sérútbúna flotpramma og litlar myndavélar sem þræddar voru ofan í skolplagnirnar.

Alls tóku um 100 manns þátt í leitinni þegar mest lét.

Eftir að hafa kannað um 741 metra af skolplögnum komu þeir auga á handafar í einni lögninni og eftir að hafa opnað nálægan brunn heyrðust hjálparköll frá Jesse Hernandez.

Björgunarsveitir létu því brunaslöngu síga ofan í brunninn og hífðu drenginn upp, hálfum sólarhring eftir að hafa fallið ofan í skolpið.

Drengurinn var ómeiddur eftir allt volkið en var þó þrifinn og sótthreinsaður í bak og fyrir.

Jesse Hernandez er á vef Guardian hrósað fyrir ótrúlega þrautseigju og er hann dásamaður fyrir að hafa aldrei gefist upp þrátt fyrir að litlar líkur væru á að hann myndi nokkurn tímann finnast. „Það er augljóst að hann er engin mannleysa,“ er til að mynda haft eftir einum leitarmannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×