Innlent

Þrýstingur um að kæra getur reynst brotaþolum kynferðisofbeldis „áfall númer tvö”

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Jón H. B. Snorrason, saksóknari við embætti ríkissaksóknara.
Jón H. B. Snorrason, saksóknari við embætti ríkissaksóknara. Vísir/Sigurjón
Það getur reynst þolendum kynferðisafbrota vera „áfall númer tvö” þegar þeir eru beittir þrýstingi til að tala við lögreglu, gefa skýrslu eða kæra brot. Að sama skapi eru meiri líkur á að mál upplýsist og jafnvel leiði til ákæru ef lögregla getur hafið rannsókn strax.

„Tíminn er versti óvinur réttvísinna,“ þegar kynferðisbrot eru annars vegar, að því er fram kom í máli dómsmálaráðherra og annarra sem kvöddu sér hljóðs á ráðstefnunni „þögnin, skömmin og kerfið“ sem fram í Háskólanum í Reykjavík. Þar flutti Jón H. B. Snorrason, saksóknari hjá embætti ríkissaksóknara, erindi sem fjallaði um það hvort lögreglan pressi um of á þolendur að kæra.

„Lögreglan pressar eðli málsins samkvæmt talsvert á að geta byrjað strax. Vonandi hefur það ekki alvarlegar afleiðingar og eykur á vanlíðan brotaþolans,“ segir Jón í samtali við Stöð 2.

Samkvæmt rannsókn sem Jón vitnaði til í erindi sínu, felldi embætti ríkissaksóknara niður 53,3% mála í þeim tilfellum sem rannsókn hófst innan við sólarhring frá því að atvik átti sér stað. 46,7% málanna leiddu hins vegar til ákæru. Aftur á móti þegar yfir sólarhringur var liðin frá atburði og þar til rannsókn hófst, hækkaði hlutfall brota sem felld voru niður, umtalsvert. 75,5% málanna voru felld niður en aðeins 24,5% þeirra leiddu til ákæru. Jón segir niðurstöðurnar sláandi.

„Sá tími sem líður frá því að brot er framið, hann er á kostnað vinnu lögreglu um öflun sönnunargagna og upplýsinga þannig að tíminn vinnur gegn árangri í rannsóknum,“ segir Jón.

Að sögn Jóns hefur þróunin þó verið í rétta átt undanfarin tíu til tuttugu ár. Nú bjóðist brotaþolum ýmis þjónusta sérfræðinga og þeim tryggður réttargæslumaður. „Þetta er mjög erfið staða sem að brotaþoli er í, hefur orðið fyrir mjög alvarlegu broti. Það þarf náttúrlega að taka tillit til þess eins og hægt er,“ segir Jón.


Tengdar fréttir

Að meðaltali 58 heimilisofbeldismál á mánuði

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu segir að töluvert hafi verið gert af umbótum og skipulagsbreytingum á kynferðisbrotadeild lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×