Innlent

Helmingur landsmanna borðar hamborgarhrygg á aðfangadag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hamborgarhryggurinn er enn vinsælasta jólamáltíð Íslendinga.
Hamborgarhryggurinn er enn vinsælasta jólamáltíð Íslendinga. Fréttablaðið/Anton Brink
Hamborgarhryggurinn á enn fastar rætur í hjörtum landsmanna en neysla á lambakjöti á aðfangadag fer minnkandi. Þetta sýna niðurstöður könnunar MMR á matarvenjum landsmanna á aðfangadag sem framkvæmd var dagana 5. til 11. desember 2018.

Alls kváðust 49% landsmanna ætla að borða hamborgarhrygg sem aðalrétt á aðfangadagskvöld, 9% kváðust ætla að borða kalkún og önnur 9% lambakjöt (annað en hangikjöt), 8% sögðu rjúpu vera á boðstólnum á sínu heimili, 5% nautakjöt og 4% svínakjöt (annað en hamborgarhrygg). Þá kváðust tæp 16% ætla að gæða sér á annars konar aðalrétt en ofantöldu.

Sjá má aukningu á fjölda þeirra sem kváðust ætla að borða hamborgarhrygg þessi jól en hlutfall þeirra hefur aukist um tæp þrjú prósentustig frá könnun ársins 2017. Þá minnkaði hlutfall þeirra sem kváðust ætla að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) um rúm fjögur prósentustig frá síðustu könnun.

Nánar á vef MMR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×