Erlent

Þýska lögreglan einskis vísari um tilefni árásarinnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Rannsóknin á tildrögum árásarinnar er í fullum gangi en þýska lögreglan er einskis vísari um tilefni árásarinnar.
Rannsóknin á tildrögum árásarinnar er í fullum gangi en þýska lögreglan er einskis vísari um tilefni árásarinnar. Vísir/afp
Þýska lögreglan veit, að svo stöddu, ekki hvers vegna maðurinn keyrði á hóp fólks í borginni Münster í Þýskalandi í gær. Hún hefur ekki neinar vísbendingar um tilefni árásarinnar en það sem liggur ljóst fyrir er að maðurinn var þýskur ríkisborgari.

Martin Botzenhardt, saksóknari, segir að maðurinn hafi að öllum líkindum verið 48 ára maður frá München en hann hafi að síðustu búið í borginni Münster. Á vef Frankfurter Allgemeine segir að hann hafi búið í um tveggja kílómetra fjarlægð frá vettvangi árásarinnar.

Þýskir fjölmiðlar hafa greint frá því að maðurinn hafi glímt við andleg veikindi en lögreglan hefur hvorki viljað staðfesta þá staðhæfingu né vísa henni á bug

„Rannsóknin er í fullum gangi og hún er ansi viðamikil,“ segir Botzenhardt en húsleit hefur verið gerð á heimili mannsins, hefur BBC eftir saksóknaranum.

Innanríkisráðherra Þýskalands, Horst Seehofer, vottar hinum látnu og særðu virðingu á vettvangi árásarinnar.vísir/afp
Borið kennsl á hina látnu

Lögreglan hefur borið kennsl á hina látnu. Annars vegar lést 51 árs kona frá norður Þýskalandi og hins vegar 65 ára maður frá bænum Borken sem er skammt frá Münster.

Vísir sagði frá því að á þriðja tímanum í gær hafi maður ekið sendibíl á hóp fólks sem sat fyrir utan veitingahús í borginni Münster með þeim afleiðingum að tveir létust og þrjátíu slösuðust. Ökumaðurinn svipti sig lífi eftir verknaðinn.


Tengdar fréttir

Lögreglan leitar að tilefni árásarinnar

Lögreglan í Þýskalandi rannsakar nú af hverju hinn 48 ára gamli Jens R., ók VW smávagni sínum inn í hóp fólks sem sat fyrir utan veitingastaðinn Grosser Kiepenkerl í Münster í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×