Enski boltinn

Margt þarf að ganga upp svo Arsenal fái Aubameyang

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ha? Af hverju þarf þetta að vera svona flókið gæti Aubameyang verið að hugsa.
Ha? Af hverju þarf þetta að vera svona flókið gæti Aubameyang verið að hugsa. vísir/getty
Það er aldrei neitt auðvelt hjá Arsenal og ef félagið ætlar sér að fá Pierre-Emerick Aubameyang þá þurfa tvö önnur félagaskipti sömuleiðis að ganga í gegn.

Í raun gæti það verið framherji liðsins, Olivier Giroud, sem ræður mestu þegar upp er staðið. Arsenal hefur náð saman við Dortmund um kaupverð á Aubameyang en leikmaðurinn fær ekki að fara nema þýska liðið fái annan framherja.

Arsenal ætlaði sér að senda Giroud til Dortmund í staðinn en Frakkinn neitar að fara og vill frekar vera áfram í London. Chelsea hefur áhuga á að kaupa hann.

Ef Chelsea fær Giroud þá gæti félagið bjargað þessari hringekju með því að senda Michy Batshuayi til Dortmund en hann er alveg opinn fyrir því.

Þessi þrjú lið þurfa því að vinna saman næsta eina og hálfa sólarhringinn ef þetta á allt saman að ganga upp.

Spurningamerkið stóra er eins og áður segir Giroud. Arsenal vill fá allt upp í 35 milljónir punda fyrir hann og sú upphæð gæti staðið í Chelsea. Svo mikið að félagið er að skoða að senda Batshuayi til Tottenham í skiptum fyrir Fernando Llorente. Þá situr Arsenal uppi með Giroud og fær ekki Aubameyang.

Það verður áhugavert að fylgjast með framvindu þessa máls á næstu klukkutímum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×