Fótbolti

Áhyggjuefni fyrir kvennaboltann hversu margir þjálfarar eru í samböndum við leikmenn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Barónessan er hér í rauða jakkanum.
Barónessan er hér í rauða jakkanum. vísir/getty
Yfirmaður kvennaknattspyrnunnar hjá enska knattspyrnusambandinu, barónessan Sue Campbell, segist hafa áhyggjur af því hversu algengt það sé að þjálfarar kvennaliða eigi í ástarsambandi við eigin leikmann.

Campbell er nýbúin að ráða Phil Neville sem þjálfara kvennalandsliðsins og segir að sumir áhugasamir um starfið hafi dregið umsókn sína til baka af ótta um umfjöllun um sitt persónulega líf.

Fráfarandi þjálfari landsliðsins, Mark Sampson, var rekinn fyrir óviðeigandi hegðun.

„Þetta er vandamál í kvennaboltanum. Að þjálfarar séu í ástarsamböndum við leikmenn sem þeir þjálfa. Það finnst okkur ekki vera til eftirbreytni. Auðvitað eigum við samt ekki að dæma fólk enda má fólk lifa sínu lífi eins og það vill,“ sagði Campbell.

„Þetta er samt vandamál því það býður upp á óþægilegar aðstæður þegar leikmaður er í sambandi með þjálfaranum. Það getur verið erfitt fyrir aðra leikmenn liðsins. Þetta gengur örugglega upp í einhverjum tilvikum en þetta er engu að síður áhyggjuefni.“

Barónessan segir að það hafi ekki enn komið til tals að setja reglur sem meina þjálfurum að eiga í ástarsamböndum við leikmenn sem þeir þjálfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×