Enski boltinn

Fékk bara gult spjald en Leroy Sane verður frá í sex vikur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Bennett tæklar hér Leroy Sane.
Joe Bennett tæklar hér Leroy Sane. Vísir/Getty
Leroy Sane, framherji Manchester City, missir af úrslitaleik enska deildabikarsins og fjöldi annara leikja á næstunni. Þýski landsliðsmaðurinn lenti í ruddatæklingu í bikarleik á móti Cardiff City um helgina.

Hinn 22 ára gamli Leroy Sane varð að yfirgefa völlinn eftir mjög ljóta tæklingu frá liðsfélaga Arons Einars Gunnarssonar, Joe Bennett.







Joe Bennett slapp með gult spjald frá dómara leiksins en Leroy Sane meiddist það illa að hann spilar ekki fótbolta í sex vikur.  Bennett kláraði reyndar ekki leikinn því hann fékk síðan annað gult spjald í uppbótartíma.

Leroy Sane hefur skorað 11 mörk og gefið 14 stoðsendingar í öllum keppnum með Manchester City á tímabilinu og verið í mjög stóru hlutverki hjá toppliðinu.

Leroy Sane missir af úrslitaleik enska deildabikarsins á móti Arsenal sem og báðum leikjunum á móti Basel í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.







Sex vikna fjarvera þýðir einnig að Leroy Sane missir af deildarleikjum á móti West Brom, Burnley, Leicester, Arsenal og Chelsea sem og bikarleik á móti Wigan.

Eftir leikinn bað Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, dómarana í enska boltanum um það að þeir myndu gera betur í vernda leikmenn. Neil Warnock, stjóri Cardiff, var hinsvegar á því að það mætti bara búast við svona tæklingum í enska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×