Innlent

Minna um líkamsárásir og alvarleg brot í miðborginni

Höskuldur Kári Schram skrifar
VÍSIR/ERNIR
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að dregið hafi úr ofbeldi og líkamsárásum í miðborginni á undanförnum árum en mannekla og álag valdi því að ekki sé alltaf hægt að bregðast strax við öllum útköllum. Dyraverðir á veitingastöðum í miðbænum eru uggandi eftir að ráðist var á starfsfélaga þeirra um helgina.

Ráðist var á tvo dyraverði við skemmtistað í miðborg Reykjavíkur um helgina og hlaut annar þeirra alvarlega áverka á mænu. Dyraverðir eru áhyggjufullir og segjast finna fyrir auknu ofbeldi í miðborginni og íhuga nú að stofna sérstök hagsmunasamtök.

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að tölur lögreglunnar sýni þveröfuga þróun þegar kemur að ofbeldisbrotum en segist þó skilja áhyggjur dyravarða.

„Tölurnar okkar segja að hegningarlagabrotum og þar erum við að tala um líkamsárásir, kynferðisbrot og önnur slík brot þeim hefur heldur fækkað, lítið fækkað, en þeim hefur fækkað á undanförnum árum,“ segir Ásgeir.

Sérstakt teymi skipað fulltrúum frá lögreglu, slökkviliði, borgaryfirvöldum og Samtökum ferðaþjónustunnar hefur á síðustu árum unnið að því að bæta samskipti og samstarf milli þessara aðila með það að markmiði að koma í veg fyrir ofbeldi á skemmtistöðum. Samstarfið var endurnýjað nú í vor.

„Þetta er að stíga fyrstu skrefin. Við erum komin með tíu veitingahús í samstarf við okkur og tvö sem eru að fara þarna inn. Við vonumst til þess að fleiri fylgi á eftir og við viljum hafa sem flest veitingahús í miðborginni í þessu samstarfi við okkur,“ segir Ásgeir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×