Enski boltinn

Gylfi var með treyju Walcott upp á vegg hjá sér en ætlar núna að taka hana niður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi lagði upp sigurmark í 3-2 sigri á Arsenal aðeins 60 sekúndum eftir að Theo Walcott hafði jafnað metin.
Gylfi lagði upp sigurmark í 3-2 sigri á Arsenal aðeins 60 sekúndum eftir að Theo Walcott hafði jafnað metin. Vísir/Getty
Nýjasti liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar er vængmaðurinn eldfljóti Theo Walcott sem hefur spilað með Arsenal undanfarin tólf. Það vissu það færri að Walcott hefur skipað sérstakan sess hjá Gylfa undanfarin sex ár.

Gylfi lék sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni fyrir sex árum síðan þegar hann spilaði með Swansea City á móti Arsenal. Íslenski landsliðsmaðurinn var þá nýkominn til velska liðsins á láni frá þýska félaginu Hoffenheim.

Eftir leikinn skiptist hann á treyjum við Arsenal-manninn Theo Walcott en þetta var í fyrsta sinn sem Gylfi bað um treyju hjá mótspilara.

Gylfi stimplaði sig vel inn í þessum leik og lagði meðal annars upp sigurmark fyrir Danny Graham í 3-2 sigri á Arsenal. Stoðsending Gylfa kom aðeins 60 sekúndum eftir að Theo Walcott hafði jafnað metin.

Gylfi Þór Sigurðsson og Theo Walcott eru orðnir liðsfélagar.Vísir/Getty
„Ég man eftir því að fá treyjuna hjá Theo af því að ég vildi eitthvað til minningar um þessa sérstöku stund. Ég rammaði hana inn og setti upp á vegg hjá mér. Núna verð ég hins vegar að taka hana niður,“ sagði Gylfi í viðtali við heimasíðu Everton.



„Það var frábært að geta látið til sín taka í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni og það á móti svona sterku liði. Það færði mér trú að ég gæti staðið mig á stærsta sviðinu í Englandi,“ sagði Gylfi.

Gylfi kom til Everton rétt eftir að tímabilið hófst og er kominn með 5 mörk og 4 stoðsendingar í öllum keppnum. Hann veit hvað Theo Walcott er nú að ganga í gegnum.

„Ég þekki það á eigin skinni, nýkominn í þetta félag, að það er mikilvægt að tala við nýju leikmennina og gefa þeim ráð. Segja þeim hvar sé best að búa eða athuga með hvort þeir þurfi á einhverju að halda. Það er auðvelt að gera en getur hjálpað mikið,“ sagði Gylfi og á þá bæði við Theo Walcott sem og nýja tyrkneska framherjann Cenk Tosun.

„Þetta eru báðir toppleikmenn sem styrkja okkar hóp. Við verðum með öfluga sókn ef við komust á skrið og náum nokkrum góðum leikjum í röð,“ sagði Gylfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×